Erlent

Sömu áhrif áfengis og lesblindu

Það hefur sömu áhrif á aksturseiginleika fólks að vera drukkið og að vera lesblint. Þetta kemur fram í rannsókn sem íslenskur prófessor í Noregi gerði og hefur vakið heimsathygli. Hermundur Sigmundsson, sem er prófessor í sálfræði við norska tækni og vísindaháskólann, stýrði þessari rannsókn sem fólst í því prófa aksturhæfileika sautján manna en af þeim voru sex lesblindir. Kannað var hversu fljótt fólkið brást við alls konar uppákomum, aðallega umferðaskiltum sem voru látin birtast hér og hvar. Niðurstaðan sem var birt í gær er sláandi og hefur leitt til þess að Hermundur hefur í allan dag verið í viðtölum við heimspressuna. Í ljós kom að það tók lesblinda fólkið 20-30% lengri tíma en hina að sýna viðbrögð í akstrinum. Til samanburðar er talið að það hægist um 10% á viðbrögðum fólks sem hefur drukkið tvo stóra bjóra og það nægir til þess að fólk megi ekki keyra bíl. Hermundur segir að með rannsókninni leggi hann ekki til að lesblindir hætti að keyra bíl því hann haldi að lesblindir finni lausnir þegar þeir keyri, t.d. að keyra hægar. Sama megi segja um gamalt fólk sem hafi skynjunarvandmál. Hann segist telja mikilvægt fyrir lesblinda og þá sem hafi sjónskynjunarvandamál að þeir veiti því athygli. Talið er að um 60-70% lesblindra eigi í einhvers konar vanræðum með sjónskynjun og það skýrir kannski undantekningarnar sem vissulega eru fyrir hendi. Bent hefur verið á að Jackie Stewart, fyrrverandi heimsmeistari í Formúlu eitt, sé lesblindur og Hermundur segist viss um að hann hafi haft einhvers konar lausnir á sínum vandamálum og æft akstur mjög mikið. Þannig séu það fleiri hlutir en viðbragðshæfni sem fólk þurfi til að verða gott akstursíþróttafólk. Auk þess sé ekki vitað hvort Stewart hafi tilheyrt þeim 60-70% lesblindra sem glími við sjónskynjunarvanda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×