Erlent

Bretar drykkfelldastir í Evrópu

Bretar kunna sér síst allra Evrópuþjóða hóf, þegar áfengisdrykkja er annars vegar. Sögusögnin um menningarlega drykkju Frakka stenst hins vegar fyllilega skoðun. Karlmenn á Bretlandseyjum fara á fyllirí í fjögur skipti af hverjum tíu þar sem vín er haft um hönd. Þetta kemur fram í nýrri úttekt sem tímaritið Time greinir frá. Meðalkarlmaður í Bretlandi innbyrðir ígildi minnst einnar vínflösku í fjörutíu prósentum tilvika þegar hann fær sér í glas. Hlutfallið er hvergi hærra í Evrópu, en sænskir karlmenn koma næstir þar sem hlutfallið er þriðjungur. Í báðum löndunum eru konur nokkuð hófstilltari og láta þær eitt til tvö glös nægja í átta skipti af hverjum tíu. Þær eru hins vegar miklu duglegri við að detta í það en franskar kynsystur þeirra sem láta sér nægja að fara á fyllerí í fimm prósentum tilvika þegar þær fá sér í glas. Franskir karlmenn eru sömuleiðis hófsamari en karlmenn annarra Evrópulanda því að í meira en níu skipti af hverjum tíu láta þeir eitt til tvö glös nægja. Þess ber að lokum að geta að Ísland var ekki eitt þeirra landa sem könnunin náði til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×