Erlent

Lesblinda hefur áhrif á akstur

Lesblinda hefur svipuð áhrif á aksturshæfileika fólks og áfengi. Ný rannsókn sýnir að viðbragðsflýtir lesblinds fólks í akstri er svipaður og þeirra sem eru fullir. Rannsókninni stýrði Íslendingurinn Hermundur Sigmundsson sem starfar við Tækniháskólann í Þrándheimi í Noregi. Hermundur lagði tvö mismunandi aksturspróf fyrir sautján manns en í hópnum voru sex lesblindir. Prófið fólst í því að kanna hversu fljótt fólkið brást við alls konar uppákomum í akstrinum, aðallega umferðaskiltum sem voru látin birtast hér og hvar. Í ljós kom að það tók lesblinda fólkið 20-30% lengri tíma en hina að sýna viðbrögð. Til samanburðar er talið að það hægist um 10% á viðbrögðum fólks sem hefur drukkið tvo stóra bjóra en þá er fólk að öllu jöfnu komið yfir leyfilegt hámark alkóhóls í blóði. Þá hefur einnig verið mælt að fólk sem talar í síma á meðan það keyrir missi allt að 45% af viðbragðsflýti sínum. Eins og vitað er er bæði ólöglegt að aka undir áhrifum áfengis og einnig að tala í farsíma og nú spyrja menn sig í kjölfarið á þessari rannsókn hvort lesblindum verði meinað að keyra bíl. Sérfræðingar segja vandséð að grípa þurfi til svo róttækra aðgerða, nóg sé að lesblindir viti af þessu vandamáli. Þá hefur Hermundur sjálfur sagt að gera þurfi viðameiri rannsókn til að staðfesta þessar niðurstöður. Það gæti í það minnsta dregið eitthvað úr alhæfingargildi rannsóknarinnar að Jackie Stewart, fyrrverandi heimsmeistari í kappakstri, er lesblindur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×