Viðskipti innlent

Verðmæti Flugleiða þrefaldast

Greiningardeild Íslandsbanka gaf í gær út nýtt verðmat á Flugleiðir. Að mati greiningardeildarinnar eru Flugleiðir 35,1 milljarðs króna virði. Síðast þegar Íslandsbanki lagði mat á Flugleiðir, í júní 2003, var niðurstaðan að félagið væri 9,7 milljarða virði. Að mati greiningardeildarinnar hefur verðmæti Flugleiða því ríflega þrefaldast á aðeins einu og hálfu ári. Að sögn Jónasar G. Friðþjófssonar, sérfræðings í greiningardeild Íslandsbanka, hafa rekstrarhorfur félagsins batnað mikið auk þess sem ávöxtunarkrafa á markaði hafi lækkað frá því að félagið var síðast greint. Gengi bréfa í Flugleiðum hefur hækkað langmest allra bréfa í Kauphöll Íslands það sem af er ári. Verð hlutabréfa í lok viðskipta í gær var 14,0 en að mati Íslandsbanka gefur reksturinn tilefni til að hlutabréfaverðið sé 13,9. Í upphafi árs var gengi bréfanna 9,8. Hækkunin það sem af er ári er því 42,1 prósent. Hagræðingaraðgerðir Flugleiða haustið 2001 virðast að mati Jónasar hafa skilað Flugleiðum varanlegum rekstrarbata, enda var árið 2002 hið besta í sögu félagsins þrátt fyrir áfallið sem flugfélög urðu fyrir í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum haustið 2001.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×