Erlent

Árásahrina í Írak í dag

Allt logaði í Írak í dag. Hrina árása kostaði ekki færri en sjö lífið og fjöldi særðist. Áætlað er að stíðsreksturinn kosti Bandaríkjamenn um hálfan milljarð á klukkustund. Dagurinn hófst með átökum hersveita og uppreisnarmanna í Ramadi. Sprengju var varpað á bílalest þar og skothríð fylgdi í kjölfarið. Íraki féll og nokkrir særðust. Í Tíkrít sprakk sprengja við bæjarskrifstofurnar þar skömmu áður en Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, kom þangað í heimsókn. Uppreisnarmenn gerðu árás á skrifstofur þriggja stjórnmálahreyfinga í Bakúba. Þar særðust átta stjórnmálamenn og lögreglumaður féll. Skammt frá Kirkúk sprungu þrjár bílsprengjur og þar fórust fimm. Í Bagdad sprungu tvær sprengjur í nótt í skólum sem nota á sem kjörstaði á sunnudaginn kemur. Hersveitir fundu samtals sex sprengjur í Bagdad og gerðu óvirkar og í Najaf fundu írakskar sveitir tvær sprengjur. Það er ekki furða að íbúar í Bagdad séu hræddir, eins og viðmælendur Jóns Ársæls Þórðarsonar dagskrárgerðarmanns sem er í Írak. Jón segir að það sé sameiginlegt þeim Írökum sem hann hafi hitt að þeir séu varkárir og hræddir við að í landinu fari allt í bál og brand vegna andstöðunnar við Bandaríkjamenn. Varkárnin stafi hins vegar vafalítið af reynslunni af áratugaharðstjórn. Viðmælendur Jóns í Bandaríkjaher segja stríðsreksturinn í Írak dýran. Áætlað sé að hann kosti Bandaríkjamenn um 8 milljónir dollara á klukkustund, jafnvirði nærri hálfum milljarði íslenskra króna á hverri einustu klukkustund sólarhringsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×