Erlent

280 þúsund að líkindum látin

Áætlaður fjöldi þeirra sem létust í hamförunum við Indlandshaf á annan dag jóla hefur nú enn hækkað. Nú er talið að alls 280 þúsund manns hafi misst lífið.  Nú mánuði eftir hamfarirnar er enn verið að finna lík í Aceh-héraði og tala látinna er því stöðugt að hækka. Stjórnvöld í Indónesíu sögðu í morgun að búið væri að finna og brenna um 97 þúsund lík en 133 þúsund manna væri enn saknað og eru þeir taldir af. Þetta þýðir að að öllum líkindum hafa um 230 þúsund manns látist í hamförunum bara í Indónesíu eða um 280 þúsund samtals í öllum þeim löndum sem urðu fyrir flóðbylgjunni. Talið er að það muni taka að minnsta kosti mánuð í viðbót að safna saman líkum en vitað er að mörg þeirra munu aldrei finnast. Hópar sérfræðinga, þar á meðal þrír Íslendingar, vinna við það í Taílandi að bera kennsl á lík erlendra ferðamanna. Það er vandaverk því rotnunin er svo hröð að nú þegar er erfitt að sjá af hvaða kynstofni líkin eru og mörg þeirra eru aðeins beinin ein. Minnst sjö manns, þar af þrír sænskir ferðamenn, létu lífið í nótt þegar skúta sökk úti fyrir Koh Samui sem er vinsæll taílenskur ferðamannastaður. Mikill fjöldi manns var að skemmta sér um borð í skútunni þegar slysið varð og var enginn í björgunarvesti. Þessi ferðamannastaður varð ekki fyrir flóðbylgjunni annan dag jóla og ferðamenn hafa því í auknum mæli leitað þangað í frí.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×