Erlent

DNA-próf til að sanna skyldleika

Hælisleitendum í Danmörku verður gert skylt að undirgangast DNA-próf til að sanna skyldleika við börn sem þeir flytja með sér, verði hugmynd danska þjóðarflokksins að veruleika. Samkvæmt stikkprufum sem eru gerðar í dag eru börn flutt til landsins með öðrum en líffræðilegum foreldrum sínum í þriðja hvert skipti. „Ég mátti ekki segja að þau voru ekki raunverulegir foreldrar mínir,“ sagði átta ára drengur í viðtali við danska ríkissjónvarpið í gærkvöldi. Hann er eitt af hundruðum barna sem flytjast til Danmerkur með „fölskum foreldrum“, ef svo má segja. Raunverulegu foreldrarnir eru með þessu að reyna að tryggja börnum sínum betri framtíð í vestrænu samfélagi. Forráðamenn barnanna í Danmörku fá barnabætur og í sumum tilfellum er hluti þeirra bóta sendur til raunverulegu foreldranna í heimalandinu. Danski þjóðarflokkurinn, sem styður meirihlutasamstarf Venstre og Íhaldsflokksins, segir börnin vera notuð sem peningavélar til að ná peningum úr danska kerfinu. Varaformaður flokksins, Peter Skaarup, krefst þess í fréttatilkynningu að DNA-próf verði skylda svo hægt sé að sanna skyldleika foreldra og barna þegar fólk leitar hælis í Danmörku. Höfuð stjórnarandstöðunnar, Sósíaldemókratarnir, styðja hugmyndina en ráðherra innflytjendamála, Bertel Haarder úr röðum Venstre, segir óþarfi að fastbinda slík próf á erfðaefni. Þau próf séu dýr og nóg sé að halda áfram að taka stikkprufur. Samkvæmt þeim eru börn ekki blóðtengd forráðamönnum sem flytja með þeim til Danmerkur í um það bil þriðja hvert skipti. Umræðan um innflytjendamál og hælisleitendur er eitt af stóru málunum í kosningabaráttunni í Danmörku, en kosið verður til þings eftir tvær vikur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×