Erlent

Júsjenkó heldur til vesturlanda

Framtíðarsýn Viktors Júsjenkó fyrir Úkraínu vísar í vesturátt en hann hélt í austur í fyrstu opinberu heimsókn sína eftir að hann tók við embætti forseta Úkraínu. Júsjenkó hélt til fundar við Vladimir Pútín Rússlandsforseta í gær þar sem þeir ræddu samskipti ríkjanna. Pútín studdi Viktor Janúkovitsj, mótframbjóðanda Júsjenkó, í úkraínsku forsetakosningunum, meðal annars vegna þess að Janúkovitsj lagði meiri áherslu á samskipti við Rússland en Júsjenkó. Hvort tveggja Júsjenkó og Pútín leggja þó áherslu á að ríkin geti átt góða sambúð. Sjónir Júsjenkó beinast þó einkum að Vesturlöndum. Þangað er hann væntanlegur í vikunni. Hann fer í höfuðstöðvar Evrópuráðsins í Strasborg, Frakklandi, í dag og á fimmtudag heldur hann í þing Evrópusambandsins í Brussel. Þar er búist við að hann tali fyrir aðild Úkraínu að Evrópusambandinu. Júsjenkó skipaði helsta bandamann sinn í stól forsætisráðherra í gær. Þar er á ferð Júlía Tímosjenkó sem lék lykilhlutverk í baráttu Júsjenkó fyrir forsetaembættinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×