Erlent

Reynt að efla öryggi

Falah al-Naqib, innanríkisráðherra Íraks, segir öryggismál landsins vera í nógu góðu horfi til þess að hægt verði að halda kosningar í landinu í lok mánaðarins. Hann kynnti nýjar öryggisráðstafanir, sem fela í sér að alþjóðaflugvöllurinn í Bagdad verður lokaður dagana 29. og 30. janúar. Einnig verður í gildi útgöngubann víða um landið að næturlagi í þrjá daga í kringum kosningarnar, sem fram eiga að fara 30. janúar. Í gær skýrðu uppreisnarmenn í Írak jafnframt frá því að þeir hafi tekið af lífi fimmtán íraska þjóðvarðliða fyrir að hafa starfað með bandaríska herliðinu. Á hinn bóginn sögðust uppreisnarmenn ætla að sleppa úr haldi átta Kínverjum, sem hafa verið í gíslingu síðan á þriðjudag. Utan Íraks eru búsettar um það bil 1,2 milljónir Íraka, en einungis tíundi hluti þeirra hefur haft fyrir því að láta skrá sig til utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Þeirri skráningu átti að ljúka í dag, en hefur verið framlengd fram á þriðjudag vegna þessarar dræmu þátttöku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×