Erlent

Vopnahléssamkomulag liggur fyrir

Vopnahléssamkomulag liggur fyrir milli palestínskra yfirvalda og skæruliðasamtaka á sjálfsstjórnarsvæðunum. Allir hlutaðeigandi neita þó fregnunum en talið er að betur horfi fyrir botni Miðjarðarhafs en í langan tíma. Ísraelsk stjórnvöld segja Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, hafa náð vopnahléssamkomulagi við skæruliða- og hryðjuverkahreyfingar Palestínumanna. Varnarmálaráðherra Ísraels segir Abbas hafa samið við íslamska Jihad og Hamas um vopnahlé í mánuð á meðan unnið er að langtímalausn. Talsmenn samtakanna harðneita þessu og segjast ekki útiloka neinar aðgerðir fyrr en Ísraelsmenn hætti sjálfir hernaðaraðgerðum sínum. Hætti Ísraelsmenn aðgerðum verði slíkt hið sama uppi á teningnum meðal Palestínumanna. Formælendur Ísraelsstjórnar vilja ekki gefa út neina slíka yfirlýsingu og segja ljóst að verði friðsamt á sjálfsstjórnarsvæðunum þurfi ekki að grípa til hernaðaraðgerða. Talsmaður Abbas neitaði að tjá sig um málið. Ljóst virðist að einhvers konar samkomulag liggur fyrir en deilt er um eðli þess. Skæruliðasamtökin hafi í raun samþykkt að leggja niður vopn í bili að því tilskildu að Ísraelsmenn geri ekki neitt en vilji ekki gefa út yfirlýsing um formlegt vopnahlé. Einn heimildarmaður dagblaðsins Haaretz meðal harðlínumanna segir Ísraelsmenn verða að gefa út ákveðna yfirlýsingu um breytta framgöngu á Gasaströndinni áður en samkomulag liggur fyrir. Vandinn virðist því snúast um hverjir stígi formlega fyrsta skrefið. Í dag verður haldinn ríkisstjórnarfundur í stjórn Ariels Sharons sem þykir sýna svo að ekki verður um villst að breytingar eru yfirvofandi. Fundurinn verður haldinn í bænum Sderot í suðurhluta Ísraels, en bærinn hefur margoft orðið fyrir flugskeytaárásum palestínskra skæruliða. Árásum hefur snarfækkað eftir að Mahmoud Abbas sendi palestínskar öryggissveitir út á götur Gasa á föstudag til að kveða niður skæruliða. Þessi skref eru smá en eru túlkuð á þann veg að betur horfi fyrir botni Miðjarðarhafs en í langan tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×