Erlent

Hafa fallist á vopnahlé

Abu Muhammed, einn af talsmönnum Al Aksa píslarvottarsveitanna, sagði í gær að sveitirnar gætu fallist á vopnahlé, svo framarlega sem Ísraelsmenn samþykkja einnig að hætta árásum á Palestínumenn og leysi jafnframt palestínska fanga úr haldi. Yfirlýsingin frá Al Aksa-hreyfingunni kemur beint í kjölfarið á yfirlýsingu frá Hamas-samtökunum um að árásum verði hætt og landamæri Ísraels verði viðurkennd sem og samkomulagi Palestínustjórnar við samtökin Jihad um vopnahlé. Yfirlýsingar þessara þriggja samtaka benda til þess að Mahmoudd Abbas, forseti stjórnar Palestínumanna, hafi náð nokkrum árangri í tilraunum sínum til þess að sannfæra þessar vopnuðu sveitir um að láta af árásum á Ísraelsmenn, sem gæti orðið fyrsta skrefið í áttina til þess að binda enda á fjögurra ára blóðug átök. Undanfarna daga hefur Abbas átt fjölmarga fundi með fulltrúum samtakanna þriggja, Hamas, Jihad og Al Aksa. Einnig hefur hann átt fundi með smærri hópum, sem væntanlega myndu fylgja fordæmi hinna þriggja stærri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×