Erlent

Óttast að lenda í miðju átaka

Hjálparstarfsmenn í Aceh-héraði í Indónesíu óttast að lenda í miðju átaka uppreisnarmanna og stjórnarhersins. Þrátt fyrir óformlegt vopnahlé halda átök áfram og hundruð hafa fallið í valinn á liðnum vikum. Harka færist í deilur indónesíska hersins og uppreisnarmanna í Aceh-héraði á Súmötru sem flóðbylgjan annan dag jóla lék grátt. Hjálparstarfsmenn finna enn fjölda líka á hverjum degi, hart nær mánuði eftir að flóðbygljan gekk yfir. Engin leið er að geta sér til um fjölda líka sem enn eru á víðavangi en í gær höfðu ríflega 93 þúsund manns verið jörðuð. Hundrað þúsund manna er enn saknað á svæðinu en talið er að hluti þeirra sé á lífi í flóttamannabúðum. Deilur og skærur hers og uppreisnarmanna torvelda bæði hjálpar- og uppbyggingarstarf. Þrátt fyrir óformlegt vopnahlé vegna flóðbylgjunnar hafa indónesískir hermenn drepið 120 uppreisnarmenn undanfarinn hálfan mánuð. Talsmenn uppreisnarmanna segja að þetta hafi verið óbreyttir borgarar. Tortryggnin er mikil og hafa hjálparstarfsmenn af því nokkrar áhyggjur að til átaka geti komið sem myndi stofna lífi þeirra og starfi í hættu. 400 þúsund manns eru hjálparþurfi í Aceh-héraði, þurfa á mat og skjóli að halda, og því mikilvægt að hjálparstarfsfólk geti sinnt sínu starfi án þess að leggja lífið að veði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×