Erlent

Enn ekki krafist lausnargjalds

Lykilkort hins horfna auðjöfurs í Svíþjóð var í fyrrinótt notað til að komast inn á skrifstofu í fyrirtækinu hans. Enn hafa ekki borist neinar kröfur um lausnargjald. Mál þetta er allt hið dularfyllsta. Fabian Bengsston er þrjátíu og tveggja ára gamall aðstoðarforstjóri í fjölskyldufyrirtækinu Siba sem er verslunarkeðja með rafmagnsvörur. Siba er með einar fimmtíu verslanir í Skandinavíu. Bengtsson hvarf á leið til vinnu sinnar í Gautaborg á mánudagsmorgun. Nokkru eftir hvarfið hafði hann samband við föður sinn um farsíma og sagði að sér hefði verið rænt. Lögreglan hóf þegar mikla leit og fann fljótlega BMW-bifreið Fabians en engar vísbendingar um hvar hann væri niðurkominn. Sænska Aftonbladet segir í dag að í fyrrinótt hafi lykilkort Fabians verið notað til þess að komast inn á skrifstofur Siba í Gautaborg. Þar liggja þó engir peningar á lausu. Aftonbladet segir að einnig hafi há upphæð verið tekin út af bankakorti hans í hraðbanka á Doktor Fries torginu í Gautaborg eftir að honum hafði verið rænt. Mest er hægt að taka út 10 þúsund sænskar krónur í einu í umræddum hraðbanka en það eru um 90 þúsund krónur íslenskar. Bengtssons er nú leitað um alla Svíþjóð en lögreglan er einnig að kanna möguleika á að hann hafi verið fluttur úr landi. Bengtsson er sagður eldklár og mikill vinnuþjarkur. Hann byrjaði á botninum í fjölskyldufyrirtækinu og vann sig upp í stól aðstoðarforstjóra. Samstarfsmenn hans segja að hann hafi verið vel að þeim frama kominn og í raun sé hann þegar orðinn aðalstjórnandi fyrirtækisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×