Innlent

VR mótmælir frumvarpi ráðherra

Verslunarmannafélag Reykjavíkur mótmælir frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á opnunartíma verslana, ekki síst þar sem ekki var haft samráð við stéttarfélag verslunarfólks við gerð þess. Í tilkynningu frá félaginu segir að meirihluti þátttakenda í nýlegri könnun vilji hafa takmarkanir á opnunartíma verslana. Í frumvarpi dómsmálaráðherra um opnunartímann er gert ráð fyrir því að verslanir sem uppfylli ákveðin skilyrði megi hafa opið föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Komi þetta til framkvæmda verður einungis skylt að hafa verslanir lokaðar frá kl. 18 á aðfangadag til kl. 6 að morgni annars í jólum. Í nefndinni sem samdi frumvarpið sat enginn fulltrúi verslunarmanna, þess fólks sem á að vinna á þessum dögum. VR hefur því sent skrifleg mótmæli til dómsmálaráðherra vegna þessara hugmynda og þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru við val í nefndina. Niðurstöður könnunar sem gerð var á heimasíðu Bylgjunnar fyrir þáttinn Reykjavík síðdegis í vikunni benda til þess að meirihlutinn vilji að takmarkanir séu á opnunartíma. Einn af hverjum fimm vill halda óbreyttum opnunartíma en þriðjungur vill takmarka hann enn frekar. 44% vilja gefa opnunartímann alveg frjálsan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×