Erlent

Fleiri en áður vilja málamiðlun

Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, hélt til fundar við leiðtoga Hamas í gærkvöldi og freistar þess í dag að fá þá til að samþykkja að láta af árásum á Ísraela. För sína heldur Abbas í á sama tíma og skoðanakannanir sýna að fleiri Palestínumenn eru reiðubúnir að gera málamiðlun við Ísraela en áður. Samkvæmt könnuninni er annar hver Palestínumaður mótfallinn málamiðlun um rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrrum heimkynna sinna. 46 prósent eru hlynnt því og er það nær tvöfalt hærra hlutfall en í desember 2003. Hlutfallið hefur einnig aukist meðal Ísraela, er 44 prósent en var 35 prósent. Pólitísk framtíð Mahmoud Abbas kann að ráðast af því hver viðbrögð Hamas verða við beiðni hans um að þeir hætti árásum á Ísraela. Vopnahlé vígamanna er forsenda friðarsamninga við Ísraela. Ísraelskir embættismenn sögðu í gær að tíminn sem palestínska heimastjórnin hefur til að koma í veg fyrir árásir á Ísraela sé að renna út. Palestínumaður sprengdi sig í loft upp í gær og særði sex ísraelska landnema á Gaza. Abbas vill að Ísraelar láti líka af árásum á vígamenn en það hafa þeir ekki tekið í mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×