Erlent

Rannsaka seinagang stjórnvalda

Rannsókn er hafin á því hvort stjórnvöld í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi hafi verið of sein að bregðast við hamfarafregnunum frá Indlandshafi. Forsætisráðherrar landanna þriggja hafa í það minnsta tekið við sér núna, en þeir eru allir staddir í heimsókn í Taílandi. Talið er að um þrjátíu þúsund Norðurlandabúar hafi verið á ferðamannasvæðunum í Taílandi þegar flóðbylgjan skall þar á. Ríflega tvö þúsund Svía, Norðmanna og Finna er enn saknað og eru þeir taldir af. Þrátt fyrir að forsætisráðherrar landanna þriggja séu nú í heimsókn í Taílandi linnir ekki gagnrýni á þá heima fyrir því nú eru þeir sakaðir um að hafa farið of seint á hamfarasvæðin. Mikill fjöldi fólks frá öllum norrænu löndunum vinnur baki brotnu við að bera kennsl á lík þeirra vestrænu ferðamanna sem fórust. Í þessum hópi eru til að mynda þrír Íslendingar; tveir tannlæknar og einn rannsóknarlögreglumaður. Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að fólkið inni af hendi erfitt starf og leggi hart að sér. Hann hafi ekki hlakkað til heimsóknarinnar en honum hefði fundist hann verða að fara. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, segir að á svæðunum séu foreldrar sem eigi lítil börn heima í Noregi og það sé þeirra starf að bera kennsl á látin börn á hamfarasvæðunum. Það sé mikil persónuleg fórn. Ráðherrarnir þrír hafa heitið taílenskum stjórnvöldum aðstoð við að koma upp viðvörunarkerfi og flóðvarnargörðum svo hægt sé að koma í veg fyrir að viðlíka hamfarir endurtaki sig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×