Innlent

Nám á háskólastigi tekið út

Menntamálaráðherra hefur gert þriggja ára áætlun um úttekt á námi á háskólastigi. Tilteknar deildir og námsleiðir í Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum á Bifröst verða teknar út, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu. Lögum samkvæmt hefur menntamálaráðherra eftirlit með gæðum menntunar sem háskólar landsins veita. Markmið gæðaeftirlitsins er að viðhalda og auka gæði kennslu í háskólum, bæta skipulag í starfsemi skólanna, stuðla að aukinni ábyrgð háskólastofnana á eigin starfsemi og tryggja samkeppnishæfni þeirra á alþjóðavettvangi. Í samningum um kennslu og rannsóknir sem menntamálaráðuneytið gerir til þriggja ára við hvern háskóla eru sett sérstök ákvæði um aukin gæði náms og þróun gæðakerfa á háskólastigi. Þar er m.a. tekið fram að menntamálaráðuneytið skuli birta yfirlit yfir úttektir sem gerðar eru á ákveðnu tímabili á háskólastigi. Nú á vormisseri verður gerð stofnanaúttekt á Háskólanum á Akureyri og fagúttekt á hugvísindadeild Háskóla Íslands. Eftir ár verður raunvísindadeild HÍ tekin út og haustið 2006 hefst svo fagúttekt á félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Haustið 2007 er svo stefnt að því að taka út lagadeild Háskólans í Reykjavík. Þá verður árið 2007 gerð fagúttekt á meistaranámi í viðskiptafræði í öllum þeim stofnunum sem upp á það bjóða, en það eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Viðskiptaháskólinn á Bifröst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×