Innlent

Gamalt gen ræður frjósemi fólks

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar lýsa uppgötvun á 3 milljóna ára gamalli umhverfu á litningi 17 í grein sem birtist í gær á vef virts erfðafræðitímarits, Nature genetics. Þeir sem umhverfuna bera í erfðamengi sínu eignast að meðaltali fleiri börn en aðrir. "Þetta er í fyrsta sinn sem hægt hefur verið að fylgjast með náttúrulegu vali á ákveðnum erfðabreytileika í manninum um leið og það á sér stað. Umhverfan finnst í um 20 prósentum af litningum Evrópumanna, 6 prósentum af litningum Afríkumanna og í 1 prósenti af litningum Asíumanna. Einkenni umhverfunnar í þjóðum Evrópu og Vestur-Asíu benda til þess að tíðni hennar hafi aukist á undanförnum árþúsundum vegna náttúruvals," segir í tilkynningu fyrirtækisins, en greinin, sem ber heitið "A common inversion under selection in Europeans", verður í febrúarhefti Nature genetics. Þá kemur fram að aldur umhverfunnar sé ákveðin ráðgáta því almennt megi gera ráð fyrir að tíðni slíks erfðabreytileika sveiflist fyrir tilviljun. Því hefði umhverfan annað hvort átt að deyja út eða ná 100 prósent tíðni á þremur milljónum ára.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×