Erlent

Tala látinna komin yfir 160 þúsund

Fjögur þúsund lík til viðbótar hafa fundist í Indónesíu og eru þá látnir komnir yfir 160 þúsund. Læknar segja að börn séu farin að deyja úr lungnabólgu. Læknar segja að ástæðan fyrir barnadauðanum sé sú að þau hafi fengið ofan í sig óhreint vatn, annað hvort þegar þau lentu í flóðbylgjunni eða eftir hana. Mörg börn liggja þungt haldin á sjúkrahúsum og nokkur þeirra hafa dáið. Hins vegar segja hjálparstofnanir að hætta á farsóttum hafi minnkað en þær séu þó enn vel á verði. Þrátt fyrir hina gífurlegu eyðileggingu eru þó mörg merki um að hjálparstarfið sé farið að skila sér. Starfsmenn erlendra hjálparstofnana, sem og hermenn, hafa lagt nótt við dag við að bæta ástandið og þess eru farin að sjást merki. Það er þó aðeins toppurinn á ísjakanum. Yfir ein milljón manna missti heimili sín í flóðunum og það munu líða mörg ár áður en lífið kemst aftur í eðlilegt horf. Sérstakt vandamál eru börn sem misstu foreldra sína og jafnvel alla fjölskylduna í flóðbylgjunni. Það þarf ekki aðeins að sjá fyrir daglegum þörfum þeirra heldur einnig að hjálpa þeim við að berjast við hið skelfilega andlega áfall sem þau urðu fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×