Erlent

Reynt að hrinda af stað styrjöld

Hryðjuverkamenn eru farnir að myrða leiðtoga sjíta í Írak og reyna að hrinda af stað borgarastyrjöld fyrir kosningarnar sem haldnar verða um næstu mánaðamót. Tveir af aðstoðarmönnum sjítaleiðtogans Alis Al Sistanis voru myrtir í dag. Sonur annars hinna myrtu og fjórir lífverðir féllu einnig í árásunum. Ajatolla Ali Al Sistani er æðstiklerkur sjíta og nánast dýrkaður af þeim. Hann hefur hvatt fylgismenn sína til þess að taka þátt í kosningunum sem haldnar verða þann þrítugasta þessa mánaðar. Sjítar eru 60 prósent íröksku þjóðarinnar. Þeir voru hins vegar grimmilega kúgaðir meðan Saddam Hussein var við völd, en súnnítar réðu þá lögum og lofum í landinu. Nú óttast súnnítar að sjítar vinni stórsigur í kosningunum og því hafa þeir hrint af stað blóðugri herferð gegn leiðtogum þeirra til þess að reyna að egna þá til átaka. Hingað til hafa sjítar haldið aftur af sér og fulltrúi þeirra í bráðabirgðastjórninni sagði í dag að þeir ætluðu ekki að færa óvinum sínum borgarastyrjöld á silfurfati. Búast má við að súnnítar muni herða sókn sína eftir því sem nær dregur kosningum. Bæði bráðabirgðastjórnin og Bandaríkjamenn hafa viðurkennt að sumir staðir í Írak séu svo ótryggir að þar verði ekki hægt að halda kosningar 30. janúar. Þeir eru hins vegar mjög ákveðnir í að kosningarnar fari fram á þessum degi þótt það geti tekið einhvern tíma að ljúka þeim um landið allt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×