Erlent

Koma sér fyrir á hættulegu svæði

Fórnarlömb flóðbylgjunnar á Srí Lanka eru nú að snúa aftur til síns heima, stjórnvöldum til mikils ama. Fólkið kemur sér á ný fyrir á svæði sem talið er stórhættulegt. Ofgnótt er af sumum neyðarvarningi en annan sárvantar. Chandrika Kumaratunga, forseti Srí Lanka, hefur notað hamfarirnar í pólitískum tilgangi. Hún bauð til að mynda Tamíl-tígrum eina þyrlu fulla af hjálpargögnum daglega, eða um tvö tonn, fyrir alla á svæðum þeirra, en þau ná yfir helming landsins. Þegar því var hafnað gátu menn sagt að Tamílar hefðu hafnað allri hjálp sem boðin var. Tamílar segja þetta stríðsyfirlýsingu. Kumaratunga sýnir þó friðarvilja því í morgun var greint frá því að hún hygðist taka að sér unga Tamílastúlku sem missti foreldra sína í hamförunum. Alþjóðasamfélagið virðist hafa tekið svo vel við sér í kjölfar hamfaranna að ofgnótt er af ýmsum neyðarvarningi, plastdúkum og ýmsu sem einfalt var flytja til landsins í flýti. Nú er svo komið að stjórnvöld biðjast undan slíkum sendingum en sárvantar ýmsan annan varning til aðstoða fórnarlömb hamfaranna. Lyf og hreinlætisvörur eru þar á meðal en þau þarf til að koma í veg fyrir að sjúkdómar breiðist út. Við suðurströnd Srí Lanka er helst að fólk snúi til síns heima á ný og því fækki þeim ört sem dvelja í neyðarskýlum og flóttamannabúðum þar. Margir vilja tryggja að þeir missi ekki gott svæði við ströndina en stjórnvöld segjast nú ætla framfylgja reglu sem bannar alla búsetu innan við 300 metra frá ströndu. Fiskimenn, sem eru fjölmargir, búa flestir í fjörunni en stjórnvöld telja það ekki óhætt. Í ljós þess að fljóðbylgjan náði víðast hvar á milli 300 og 500 metra upp á land er ljóst hvers vegna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×