Innlent

Farsímanotkun hættuleg börnum

Börn yngri en átta ára eiga ekki að nota farsíma að mati William Stewart, formanns breskrar nefndar sem fjallar um geislavarnir. Að hans mati stafar börnum hætta af geislun frá símunum þrátt fyrir að það hafi ekki verið sannað. William sagði í viðtali við Sky-fréttastofuna að börn verði fyrir mun meiri áhrifum af völdum geislunar en fullorðnir. Því sé nauðsynlegt að benda foreldrum á að gefa ungum börnum ekki farsíma. Drífa Hjartardóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þrisvar sinnum lagt fram þingsályktunartillögu um að heilbrigðisráðherra verði falið að standa fyrir rannsókn á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til krabbameins. Drífa segir ummæli breska vísindamannsins sýna fram á að huga þurfi betur að þessum málum hér á landi. "Við eigum að skoða þetta fordæmalaust og án allrar hræðslu." Hún segir svo stutt síðan notkun farsíma hófst að áhrif hennar á heilsu fólks séu enn ókunnar. "Við vitum ekki hvað við erum að gera heilsu okkar." Tillagan verður aftur lögð fram á komandi þingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×