Erlent

Vilja 400 milljarða í hjálparstarf

Sameinuðu þjóðirnar vilja að þjóðir heims leggi fram sem svarar 400 milljörðum íslenskra króna til hjálparstarfs á hamfarasvæðunum í Asíu. Þegar hafa safnast rúmlega 250 milljarðar. Rætt verður í dag hvernig fénu er best varið og hvernig hægt verði að tryggja að það renni raunverulega til hjálparstarfs. Síðar í dag halda Sameinuðu þjóðirnar fund í Genf með fulltrúum þeirra landa sem hafa heitið því að gefa fé til hjálparstarfs á hamfarasvæðinum. Rætt verður hvernig þeim milljörðum dollara sem safnast sé best varið til að hjálpa fórnarlömbum. Eitt stærsta áhyggjuefnið er að allt féð sem hefur verið heitið verði raunverulega greitt, og að því verði varið í þágu fórnarlambanna og ekki annars. Sameinuðu þjóðirnar vilja að framlögin nemi að minnsta kosti 400 milljörðum íslenskra króna en þegar hafa safnast rúmlega 250 milljarðar. Lögð er áhersla á að hjálpin berist fljótt. Margar þjóðir eru enn að hækka loforð sín um framlög. Á sunnudag sögðust kanadísk stjórnvöld ætla að hækka sín framlög úr fjórum milljörðum í tuttugu og tvo. En Sameinuðu þjóðirnar vilja að hver þjóð segi nákvæmlega til um hvenær féð verði látið af hendi til að koma í veg fyrir innihaldslaus loforð, eða að féð verði greitt út á jafnvel löngu árabili. PriceWaterhouseCoopers hefur verið fengið það verkefni að fylgja eftir loforðum um framlög og rannsaka allar ásakanir um svik, eyðslu eða misnotkun peninganna. Áður hefur komið fyrir að þjóðir hafi heitið framlögum sem síðan voru aldrei greidd, til dæmis þegar harður jarðskjálfti skók Bam í Íran í desember 2003. Einnig er lögð áhersla á að þjóðir heims vanræki ekki hjálparstörf og aðstoð á öðrum svæðum heimsins, eins og í Darfúr héraði í Súdan, Búrundí og í Tsjetsjeníu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×