Skoðun

Þjóðrembuleg viðhorf?

Verkalýðshreyfingin og Kárahnjúkar - Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins Í Fréttablaðinu 8. janúar 2005 er leiðari eftir Guðmund Magnússon þar sem m.a. kemur fram að verkalýðshreyfingin hafi ekki getað sett fram rök fyrir sínu máli og Impregilo eigi að njóta vafans. Guðmundur hefur oft sett fram einkennilegar skoðanir um stéttarfélög sem bera glögglega merki óvildar í garð þeirra. Ef við lítum aðeins yfir feril þessara framkvæmda og rifjum upp nokkur helstu atriðin: a) Þegar boð Impregilo kom fram í upphafi vakti það undrun hversu mikið lægra það var en önnur tilboð. Margir þaulvanir verktakar úr virkjanaframkvæmdum gagnrýndu hvernig staðið hefði verið að útboðinu og eins kom fram sú fullyrðing að þetta myndi aldrei geta staðist, launaliðurinn væri mun lægri en gildandi kjarasamningur heimilaði. Þrátt fyrir þetta lét Landsvirkjun þetta ekki hafa áhrif og gekk til samninga við fyrirtækið. Gert var lítið úr þessari gagnrýni og sagt að hún væri byggð á óeðlilegum forsendum. Í ljós hefur komið að ásakanirnar voru réttar. b) Þegar Impregilo hóf að reisa búðirnar bentu trúnaðarmenn stéttarfélaga og eins byggingarfulltrúar á að húsin myndu ekki standast íslensk vetrarveður. Ráðherrar Framsóknarflokksins fóru þá upp að Kárahnjúkum og luku upp lofsorði að þetta væru glæsilegustu vinnubúðir sem reistar hefðu verið hér á landi. Formaður Framsóknarflokksins lét hafa það eftir sér í sjónvarpsfréttum, að þær væru svo glæsilegar að hann og kona hans gætu vel hugsað sér að búa þar og þakkaði þessu fyrirtæki sérstaklega fyrir að koma hingað og taka að sér þessar framkvæmdir. Trúnaðarmenn stéttarfélaganna voru hæddir og sakaðir um fordóma. Í ljós kom að hið bláfátæka erlenda verkafólk átti ömurlegan vetur í þessum búðum og gat þakkað það ráðherrum Framsóknarflokksins að fyrirtækið komst upp með að búa því þessar aðstæður. Loftin hrundu niður í rúm starfsmanna undan snjóþunga, útihurðir fuku út í buskann og snjóskaflar voru í anddyrum og á göngum. Loftljós voru full af leysingavatni. Þrátt fyrir að húsin væru endurbyggð að miklu leyti sumarið eftir er enn svo komið að verkafólk býr þarna í dag við hitastig sem fer oft niður fyrir 10 stig, sé að marka nýlegar fréttir. c) Trúnaðarmenn verkafólks sögðu strax að hlífðarföt starfsmanna væru langt frá því að vera ásættanleg. Eins og venjulega var ekkert gert. En í fyrstu vetrarveðrum kom í ljós að hlífðarskór héldu ekki vatni, vettlingar voru örþunnir gúmmíhanskar og hlífðargallar örþunnir. Verkamenn slógust um dagblöð til þess að setja í skó sína og inn á sig. Þá fór fyrirtækið og sló um sig með hjálp fjölmiðla og keypti 200 pör af ullarsokkum. d) Trúnaðarmenn kölluðu ítrekað á heilbrigðiseftirlit m.a. vegna þess að geymsluaðstaða matar var ekki til staðar. Snyrtiaðstöðu starfsfólks eldhúsa væri verulega ábótavant. Ekki væru anddyri á mötuneytum til þess að geyma blautan hlífðarfatnað. Heilbrigðisfulltrúi sendi hverja aðvörunina á fætur annarri og veitti ítrekuð frávik um skamman tíma svo bæta mætti úr og svo dagsektum. Fyrirtækið lagaði nokkur helstu atriði eftir margra mánaða hark og að sunnan kom fyrirskipun til heilbrigðisfulltrúa að fella niður dagsektir. e) Trúnaðarmenn bentu á að engir kaffiskúrar væru úti á vinnusvæðum og ekki heldur neinar snyrtingar. Í eitt sinn er ég var þarna uppfrá vakti það athygli mína að þegar verkafólkið fór úr morgunmat og í hádeginu fyllti það alla vasa af sykurmolum auk þess að hella úr öllum sykurkörum í kaffibrúsana. Aðspurðir sögðu þeir mér að þetta gerðu þeir til þess að hafa orku yfir daginn. Verkafólkið skreið inn í gilskorninga til þess að leita skjóls í kaffitímum og reyndar voru allir skjólstaðir fljótlega þannig eftir skort á snyrtingum að þar var ekki vært fyrir ódaun. Vinnueftirlit dró fæturna í málinu en þegar farið var að bera á því að þetta var farið að hafa umtalsverð áhrif á vinnu starfsmanna, þá loks voru teknir nokkrir gamlir ryðgaðir gámar og starfsmönnum heimilað að nota þetta sem kaffistofur. Hér brást Vinnueftirlitið fullkomlega hinum illa stöddu erlendu gestum okkar. f) Trúnaðarmenn bentu brunaeftirliti á að öllum brunavörnum væri verulega ábótavant. Það lenti í margra mánaða harki til þess að fá helstu lágmarksaðgerðir framkvæmdar. Í hvert skipti sem tókst að fá fyrirtækið til að framkvæma einhverjar úrbætur birtust í fjölmiðlum fjálgar fréttir um hversu duglegt fyrirtækið væri, allt var best við Kárahnjúka. Aldrei minnst á að það væri eftir margra mánaða þref eftirlitsmanna sem loks tókst að fá það til framkvæmda. g) Í upphafi var rætt um að fyrirtækið myndi ráða 70–80% Íslendinga í störfin. Flestir þeirra Íslendinga sem sóttu um störf fengu engin svör, sama gilti um Norðurlandabúa. Margir þeirra sem hófu störf fluttu sig síðan til íslenskra fyrirtækja sem voru að störfum á svæðinu við aðrar stíflugerðir og eins við undirbúning stöðvarhússins. Allan tímann hefur verið ljóst að fyrirtækið vill ekki ráða Íslendinga, atvinnuleysi hefur ekkert minnkað, þvert á móti. Forsvarsmenn stéttarfélaga eru sakaðir um kynþáttafordóma. h) Fljótlega eftir að vinna hófst á svæðinu gagnrýndu trúnaðarmenn launakjör hjá Impregilo. Fyrirtækið sagði að þetta væri fjarri öllu sanni og enn voru trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaga hæddir í fjölmiðlum af ráðherrum og nokkrum fréttamönnum. En við nánari athugun kom í ljós að launakjör þeirra sem voru hér í gegnum starfsmannaleigur voru víðsfjarri lágmarkslaunum. Þetta var leiðrétt eftir mikið hark. Þá tilkynnti forstöðumaður Vinnumálastofnunar að hann ætlaði að fara upp eftir og skoða eina útborgun. Hann tilkynnti þetta í fjölmiðlum með tveggja vikna fyrirvara og fór uppeftir með flokk sjónvarpsmanna. Og viti menn, þau launaumslög sem honum voru rétt voru með réttum upphæðum. Enginn frá félagsmálaráðuneytinu hefur farið upp eftir aftur. Félagsmálaráðherra hefur ekki stigið í ræðustól síðan þá án þess að gagnrýna verkalýðshreyfinguna fyrir ástæðulausar ásakanir, starfsmenn hans hafi ætíð haft launakjörin undir sérstakri aðgæslu!! Nú er komið í ljós að þessi leiðrétting launa hinna erlendu launamanna var fólgin í því að fundið var út hver væru útborguð laun Íslendinga miðað við hæstu skattgreiðslur hér á landi. Tekjuskattar eru töluvert lægri í Portúgal en hér, þannig að fyrirtækið stillti heildarlaunum þeirra þannig að útborguð laun voru þau sömu og Íslendinga og stakk með þessu fyrirkomulagi 35% launum þeirra í eigin vasa. Fyrirtækið hefur nýverið viðurkennt að þetta sé rétt. Skattgreiðslur í Kína eru enn lægri, Impregilo þarf að hafa um 1.100 launamenn þannig að allt að helmings lækkun á launakostnaði er feiknarleg upphæð og þar er kominn sönnun þess hvers vegna Impregilo gat boðið svo mikið lægra en aðrir. i) Öryggistrúnaðarmenn bentu ítrekað á að öryggisvörnum væri verulega ábótavant í gljúfrum. Margítrekað var bent á að við frostleysingar væri hrun í íslensku bergi langt umfram það sem þekktist víða erlendis. Öll vitum við til hvaða hörmulega atburðar dró. Þá fyrst beitti Vinnueftirlitið sér og krafðist úrbóta. j) Trúnaðarmenn stéttarfélaganna bentu á að það væri umtalsverður fjöldi erlendra verkamanna á svæðinu án þess að hafa tilskilin réttindi til aksturs á stórum vinnuvélum. Að venju voru þeir hæddir í fjölmiðlum og Vinnueftirlitið hélt því fram að þetta væru ýkjur. Í svari félagsmálaráðherra kom fram að á svæðinu hafi verið samtals 405 útlendingar frá Evrópska efnahagssvæðinu sem hafi fengið dvalarleyfi hérlendis vegna starfa á svæðinu. Einnig að tæp 240 leyfi fyrir verkamenn fyrir utan EES hafi verið veitt frá upphafi framkvæmda. Einnig kom fram að erlendir stjórnendur vinnuvéla þar sem krafist er vinnuvélaréttinda eða meiraprófs eru 98 samtals, þar af eru 27 Kínverjar og 71 Portúgali. Svar félagsmálaráðherra var klár útúrsnúningur og beinlínis rangt. Samkvæmt skýrslum sem trúnaðarmenn verkalýðshreyfingarinnar sýndu kom fram að frá upphafi framkvæmda hefðu verið 1.660 erlendir menn við Kárahnjúka um lengri eða skemmri tíma og 741 farnir heim, að hér væru að störfum 919. Það var fjarri þeim tölum sem komu frá félagsmálaráðherra og við blasti að ásakanir þeirra voru réttar. Í þessu sambandi má benda á að íslenskt fyrirtæki var á sama tíma dregið fyrir dómstóla og sektað um verulegar upphæðir fyrir að hafa notað starfsmenn á vinnuvélum án réttinda. k) Trúnaðarmenn iðnaðarmanna höfðu samband við sýslumann á Seyðisfirði fyrir rúmu ári og bentu á að samkvæmt starfsmannaskýrslum Impregilo væru hér vel á annað hundrað erlendra iðnaðarmanna, en samkvæmt landslögum bæri honum að kanna hvort erlendir starfsmenn hefðu tilskilin starfsréttindi. Sýslumaður var spurður hvort hann hefði sinnt lagalegri skyldu sinni. Sýslumaður sendi þá Impregilo bréf með fyrirspurn og var ekki svarað. Hann sendi síðan bréf 6 mánuðum síðar til iðnaðarmannafélaganna og sagði að þau yrðu sjálf að fara inn á svæðið og finna þá einstaklinga sem ekki uppfylltu skilyrði um starfsréttindi. Sýslumanni var svarað að það væri harla einkennilegt ef hann væri að framvísa rannsóknarrétti sínum til annarra, hann hefði enga heimild til þess. Bent var á nokkra sem sannanlega voru í störfum þar sem krafist væri réttinda af Íslendingum. Nú eru liðnir nokkrir mánuðir, aðspurður um gang málsins kom það svar frá sýslumanni að sá sem hefði umsjón með þessu máli væri kominn í fæðingarorlof!! l) Í virkjanasamningi eru ákvæði um að fyrirtækjum beri að semja við starfsmenn sína um bónusa. Í fyrri virkjunum hafa þeir verið að skila starfsmönnum að jafnaði um 25% og taka lágmarkslaun í samningnum mið af því. Loks eftir mikið hark tókst að fá Impregilo seinni hluta síðasta vetrar til þess að ganga frá þessum hluta samningsins. En fyrirtækið virðist ekki taka neitt tillit til hans. m) Birgjar hafa unnvörpum lent í vandræðum með Impregilo, fyrirtækið hefur dregið allar greiðslur langt umfram það sem eðlilegt er. Síðastliðið sumar gafst langferðabílafyrirtæki upp á viðskiptum við fyrirtækið. Landsvirkjun hefur margoft þurft að greiða upp skuldir Impregilo við undirverktakafyrirtæki sakir þess að þau voru komin á barm gjaldþrots. n) Sveitarfélög og ríkisskattstjóri hafa kvartað undan því að fyrirtækið greiði ekki til samfélagsins eins og önnur fyrirtæki. Hér hef ég einungis talið upp örfá helstu atriði sem trúnaðarmenn og starfsmenn stéttarfélaga hafa glímt við. Í viðtali nýverið við formann stéttarfélags verkafólks á Austurlandi kom fram að það væru endalaus vandræði við Impregilo. Það tæki langan tíma að leysa hin einföldustu mál og við lausn hvers mál risu upp tíu ný vandamál. Þessi listi er ekki síður áfellisdómur yfir félagsmálaráðuneytinu og þeim stofnunum sem undir því eru. Allt hefur þetta komið fram í fréttum og mér er fullkomlega óskiljanlegt hvernig blaðamaður getur sett fram þá skoðun að verkalýðshreyfingin hafi ekki getað sýnt fram á óeðlileg vinnubrögð Impregilo. Í hvert einasta skipti sem trúnaðarmenn verkalýðsfélaganna hafa sett fram athugasemdir hefur komið í ljós að þær voru réttmætar. En það hefur hins vegar ætíð farið fram með þeim hætti að fyrst hafa þeir mætt fullkomnu áhugaleysi fyrirtækisins og svo þegar þeir hafa viljað fá opinbera eftirlitsmenn til liðs við sig hefur viðmótið ætíð verið það sama. Lítið er gert úr trúnaðarmönnum og þannig hefur hvert einasta atriði tekið marga mánuði. Það má ætla að þetta sé einmitt tilgangur forráðamanna Impregilo. Draga allt þangað til þeir eru farnir. Þeir eru greinilega óvanir að starfa í svona umhverfi og hafa starfað í umhverfi þar sem þeir hafa getað hagað sér að eigin vild, sett eigin reglur með afskiptaleysi ráðamanna. Fyrirtækið er orðið svo forhert að það hótar íslensku þjóðinni öllu illu fái það ekki að halda áfram að hafa þessa hluti eins og því sýnist. Svo einkennilegt sem það er nú eru til Íslendingar sem finnst þessi framkoma í lagi og þeir ganga meira að segja svo langt að segja það þetta séu ekki einhverjar hótanir. Þeir sem því haldi fram beri svip gamaldags viðleitni til að blanda þjóðernisrembingi inn á svið þar sem hann á ekkert erindi. Viðhorf Guðmundar Magnússonar til launamanna og samtaka þeirra eru öllum landsmönnum vel kunn. Við kynntumst þeim mjög vel þegar hann var að kynna bók sína um Vinnuveitendasambandið. Hann hefur ítrekað birt glefsur úr bók sinni, þar sem hann eignar samtökum atvinnurekenda allt gott sem gerst hafi í íslensku þjóðfélagi. Vinnuveitendum hafi með harðvítugri baráttu gegn stéttarfélögum tekist að laga til vinnutíma, aðbúnað og laun. Öll vitum við að lögskilinn hvíldartími, sjúkrasjóðir, lífeyrissjóðir og lágmarkslaun komu eftir harðvítug verkföll láglaunamanna. Guðmundur leikur einnig oft þann leik að grípa upp neikvæðar setningar um starfsemi stéttarfélaga úr erindum og greinum annarra og slíta þær úr samhengi til þess að ná fram ásetningi sínum. Nýverið dró hann eina setningu út úr grein hagfræðings um efnahagsmál, að verkalýðsforkólfar hefðu nýverið samið af láglaunamönnum launhækkanir og fengið rannsóknarstyrki í staðinn!! Um hvað er maðurinn að tala? Íslensk verkalýðshreyfing hefur barist fyrir því að kjarasamningar séu haldnir og innlendum og erlendum launamönnum séu greidd lágmarkslaun. Það hefur aldrei komið fram að íslensk stéttarfélög vilji ekki erlent verkafólk hingað, en við viljum tryggja því sömu réttindi og við höfum byggt upp hér á landi. Lágmarksaðbúnaður og öryggi þeirra verði sem best tryggt. Atburðarásin við Kárahnjúka er ekki einangruð frá íslensku atvinnulífi, hún hefur smitað út frá sér. Þessi barátta snýst í dag um að verja íslenskan vinnumarkað og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Ef það er þjóðrembingsháttur þá viðurkenni ég fúslega að vera þjakaður af honum, meira að segja verulega. Það er löngu viðurkennd staðreynd að ef launamönnum eru boðin léleg laun og slæmur aðbúnaður verða afköst léleg. Mér er minnisstætt þegar ég fór um svæðið í byrjun og horfði á 60 manna hóp Tyrkja reisa svefnskála. Það gekk hægt, þeir röðuðu sér tugum saman á bitana og roguðust með þá úr gámum og reistu með erfiðismunum. Vanir íslenskir byggingarmenn voru þar ekki fjarri og sögðust hafa bent á að það væri hægt að ná upp mun meiri afköstum með 8 vönum íslenskum byggingarmönnum og krana. Íslendingar voru tilbúnir til þess að reisa búðirnar fyrir sama pening og það kostaði Impregilo en fengu ekki. Ég hef sett þá skoðun fram fyrir löngu að þegar upp verður staðið mun Landsvirkjun hafa greitt fyrir Kárahnjúkavirkjun svipaða upphæð og hin "eðlilegu" tilboð voru. Þeir reyndu fyrir nokkrum árum að nota lélega erlenda rafiðnaðarmenn við Sultartanga og fengu það allt í hausinn. Það þurfti að skipta út hluta rafbúnaðarins. Ég hef þessa skoðun fyrir mig og mun halda henni fram þangað til við sjáum heildaruppgjör. En ég hef reyndar mun meiri áhyggjur af þeirri áhættu sem íslensku atvinnulífi er búin. Já, það er svona að vera þjakaður af þjóðarrembu. Þessi deila snýst fyrst og síðast um samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og afkomu láglaunafólks.



Skoðun

Sjá meira


×