Erlent

Yfirburðarsigur Abbas

Mahmoud Abbas, frambjóðandi Fatah, stærstu fylkingarinnar innan Frelsissamtaka Palestínumanna (PLO) sigraði örugglega í forsetakosningunum sem fram fóru í gær. Samkvæmt útgönguspám fékk hann á bilinu 66 til 70 prósent greiddra atkvæða. Mustafa Barghouti, helsti keppinautur Abbas, fékk um 20 prósent atkvæða. Enginn hinna fimm frambjóðendanna náði tíu prósenta fylgi. Gríðarleg fagnaðlæti brutust út víðsvegar um Palestínu þegar spárnar voru kunngjörðar. Fólk söng á götum úti og skotið var úr rifflum upp í loftið. Abbas, sem kallaður er Abu Mazen í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs, hefur lofað að gera endurbætur á palestínska stjórnkerfinu, sem eftir áratuga stjórn Jasser Arafats er talið gjörspillt og óskipulagt. Abbas hefur ennfremur sagst ætla að endurverkja friðarviðræðurnar við ísraelsk stjórnvöld sem hafa legið niðri síðustu fjögur ár. Kosning Abbas er talin þýða að nýir tímar séu framundan í Palestínu. Abbas, sem hefur gagnrýnt ofbeldi palestínskra öfgamanna, nýtur víðtæks stuðnings alþjóðasamfélagsins enda þykir hann hófsamur leiðtogi. "Það eru erfiðir tímar framundan," sagði Abbas þegar hann ávarpaði fjölda stuðningsmanna sinna í borginni Ramallah. "Verkefnin eru óþrjótandi við að byggja upp palestínskt þjóðfélag og tryggja öryggi borgarana." Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, segist reikna með að funda með Abbas fljótlega. Hann sagði sem tákn um vinsemd myndu ísraelsk stjórnvöld á næstunni sleppa hluta af um sjö þúsund palestínskum föngum sem eru í fangelsum í Ísrael. "Ég held að þessi kosning sýni að ákveðnar breytingar séu að eiga sér stað í Palestínu," sagði Raanan Gissin, aðstoðarmaður Sharon. "Við tökum þessum breytingum fagnandi og vonum að Abu Mazen leiði palestínsku þjóðina á leið sátta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×