Erlent

Þrír látnir og tveggja saknað

Þrír eru látnir og tveggja er saknað eftir fárviðri í Norður-Englandi. Áin Eden flæddi út fyrir bakka sína og orsakaði flóð í borginni. Maður á sjötugsaldri lést þegar hlaða hrundi ofan á hann í Cumbria og tvær eldri konur létust þegar flæddi inn í íbúðir þeirra í Carlisle. Þúsundir borgarbúa neyddust til að yfirgefa heimili sín vegna flóðanna. Fólk er hvatt til þess að halda sig innan dyra og varað er við óhreinu og sýktu vatni. Um sjötíu þúsund heimili voru rafmagnslaus á svæðinu og ekki er vitað hvenær rafmagn kemst á aftur. "Við erum öll í sjokki og trúðum ekki að þetta væri að gerast," sagði Peter Graham sem þurfti að yfirgefa heimili sitt vegna flóðanna. "Fullt af fólki þurfti að sofa á dýnum á gólfinu og við þurfum jafnvel að halda okkur hér í fjóra til fimm daga." Lögreglumaður í Carlisle sagði að mögulega yrði hægt að koma rafmagni aftur á í hluta borgarinnar í dag en alls ekki allri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×