Erlent

Fleiri látnir í óveðrinu

Tala látinna í óveðrinu sem gekk yfir Danmörku og suðurhluta Svíþjóðar í gær er nú komin upp í ellefu. Sjö létust í Svíþjóð og fjórir í Danmörku, flestir eftir að tré féllu á bíla þeirra. Á Bretlandseyjum, þar sem óveðrið fór líka yfir, létust þrír og tveggja er saknað. Rafmagn fór af 411 þúsund heimilum í Svíþjóð og segir sænska Aftonbladet að mikil ringulreið hafi verið í suðurhluta Svíþjóðar vegna óveðursins. 60 þúsund heimili voru án rafmagns í Danmörku en þar mældust hviður allt upp í 49 metra á sekúndu. Á götum í bæjum á Vestur-Jótlandi var víða þriggja metra djúpt vatn. Óveðrið hefur verið borið saman við svokallaðan fellibyl 20. aldarinnar sem gekk yfir Danmörku, Svíþjóð og norðurhluta Þýskalands í desember 1999. Þá létust 18 manns í löndunum þremur og gríðarlegt eignartjón varð. Á Bretlandseyjum léstust þrír í óveðrinu og tveggja er saknað. Talið er að ár, sem flæddu yfir bakka sína vegna gríðarlegrar úrkomu í óveðrinu, hafi hrifsað þá með sér. Verst var ástandið í Kúmbríuhéraði þar sem björgunarmenn hjálpuðu þúsundum af heimilum sínum eftir að flætt hafði inn í þau. Þar voru 76 þúsund heimili án rafmagns í verstu flóðum í 40 ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×