Erlent

Enn hörmungarástand víða í Asíu

Enn er hörmungarástand á hamfarasvæðunum í Asíu og illa gengur að koma neyðargögnum til fórnarlamba á Súmötru. Skuldir þeirra þjóða sem verst urðu úti verða frystar í von um að það auðveldi uppbyggingarstarf. Verst er ástandið á Súmötru, í Banda Aceh héraði, þar sem ekki hefur enn tekist að koma öllum fórnarlömbum hamfaranna til hjálpar. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna segja örlög tugþúsunda á huldu og að fjöldi þeirra sem fórust gæti margfaldast eftir því sem fleiri finnast og ef ekki tekst að koma hjálpargögnum til allra um helgina. Ómar Valdimarsson, upplýsingafulltrúi hjá Rauða krossinum, er á Súmötru og hefur kynnt sér aðstæður þar. Hann segir varla hægt að lýsa ástandinu með orðum. Hann hafi farið í morgun til Meulaboh, 60 þúsund manna bæjar á vesturströndinni, og þar hafi 90 prósent af öllum byggingum sem þar stóðu verið horfnar. Fólk ráfi um með brostin augu en smálíf hafi verið farið að færast yfir bæinn, konur farnar að selja grænmeta á götunum. Enn væri þó verið að leita að fólki sem hefði týnst og væntanlega farist í hamförunum. Ómar sagði hátt í hundrað sjálfboðaliða frá Rauða krossi Indónesíu hafa verið í bænum í viku og þeir hefðu haft upp á 2.600-2.700 manns en enn væri um 3.000 saknað. Töluverð vinna biði þeirra því enn. Ómar telur að flóðbylgjan hafi náð hátt í tvo kílómetra inn í landið og eyðilagt allt sem fyrir varð. Margra ára uppbyggingarstarf bíði fólks. Ómar hefur starfað víða fyrir Rauða krossinn en segist aldrei hafa séð neitt þessu líkt. Hann hafi komið til Papúu Nýju-Gíneu eftir að flóðbylgja reið þar yfir sem kostaði tvö þúsund manns lífið. Sú bylgja hafi verið minni en meiri skellur en þegar 60 þúsund bæjarfélag hverfi af yfirborði jarðar eins og nú sé ekki hægt að líkja því við neitt. Þetta sé eins og kjarnorkusprengju hafi verið kastað á svæðið. Talið er að í dag takist að koma neyðarhjálpargögnum til síðustu fórnarlamba flóðbylgjunnar á Srí Lanka, sem ekki hefur nást til, til þessa. Uppbyggingarstarf er hafið sums staðar á eynni en óljóst er hvort hjálpargögn komast með eðlilegum hætti til svæða tamílskra uppreisnarmanna. Þeir saka stjórnvöld um að nota neyðarhjálp í átökunum sem staðið hafa árum saman en stjórnvöld neita því. Þau komu hins vegar í veg fyrir að Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, gæti sjálfur kynnt sér ástandið á þeim svæðum, en hann er nú í heimsókn á Srí Lanka. Haft er eftir ónafngreindum embættismönnum innan Sameinuðu þjóðanna að þetta hafi vakið reiði innan sendinefndar Annans. Ríkistu þjóðir heims tilkynntu í gær að skuldir þjóða sem urðu fyrir barðinu á flóðbylgjunni yrðu frystar. Það er talið gera ríkisstjórnum þeirra landa kleift að nota fé, sem annars hefði farið til greiðslu skulda, til uppbyggingarstarfs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×