Viðskipti innlent

34,5 milljarða hagnaður KB banka á árinu

MYND/Vísir

KB banki skilaði 9,7 milljarða króna hagnaði eftir skatta á þriðja ársfjórðungi. Hagnaðurinn á fyrstu níu mánuðum ársins nemur því 34,47 milljörðum króna.

Hagnaður á hlut á þriðja ársfjórðungi nam 14,8 krónum, samanborið við 13,5 krónur á hlut á þriðja ársfjórðungi 2004 og 20,9 krónum á hlut á öðrum ársfjórðungi 2005. Þá nemur hagnaður á hlut á fyrstu níu mánuðum ársins 52,7 krónum, samanborið við 26,3 krónur á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár nam 32,3% á fyrstu níu mánuðum ársins en nam 36,7% á sama tímabili árið 2004.

 

 

Megin niðurstöður

 

¨ Hagnaður eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins jókst um 163,3% miðað við sama tímabil 2004.

¨ Hagnaður eftir skatta á þriðja ársfjórðungi 2005 jókst um 47,6% miðað við sama tímabil 2004.

¨ Hreinar rekstrartekjur námu 68,9 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins – 94,5% aukning miðað við sama tímabil 2004.

¨ Rekstrarkostnaður nam 23,5 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins – 44,9% aukning miðað við sama tímabil 2004.

¨ Rekstrarkostnaður Kaupþings banka á þriðja ársfjórðungi, án Singer & Friedlander, jókst um 2,3% miðað við þriðja ársfjórðung 2004.

¨ Kostnaðarhlutfall var 34,1% á fyrstu níu mánuðum ársins – var 45,7% á sama tímabili í fyrra.

¨ Heildareignir námu 2.310 milljörðum króna þann 30. september 2005 – 48,6% aukning frá áramótum.

¨ Á fyrstu níu mánuðum ársins mynduðust 70% af rekstrartekjum bankans utan Íslands.

¨ Kaupþing banki yfirtók breska bankann Singer & Friedlander Group plc. í byrjun þriðja ársfjórðungs 2005 og eru rekstrarniðurstöður Singer & Friedlander á þriðja ársfjórðungi nú inni í samstæðureikningi Kaupþings banka.

¨ Óregluleg gjöld vegna yfirtökunnar á Singer & Friedlander, sem voru bókuð á þriðja ársfjórðungi, námu samtals 1,1 milljarði króna.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka, segir uppgjörið sýna traustan rekstur bankans og mikla breidd í tekjumyndun. Arðsemi samstæðunnar hafi verið vel yfir markmiðum bankans eða liðlega 32,3% á fyrstu níu mánuðum ársins. „Samhliða vexti í starfseminni hefur arðsemin verið vel viðunandi og gott aðhald í kostnaði. Áhrif yfirtökunnar á Singer & Friedlander sjást nú í fyrsta skipti í reikningum bankans, en á næstu 18 mánuðum stefnum við að því að auka arðsemi Singer & Friedlander í samræmi við markmið okkar um 15% arðsemi eigin fjár. Vöxtur er í starfsemi bankans á flestum markaðssvæðum, einkum í Bretlandi þar sem þriðjungur af tekjum bankans mynduðust á ársfjórðungnum," segir Hreiðar Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×