Erlent

Fangabúðirnar í Guantanamo 3 ára

Þrátt fyrir að fá verk Bandaríkjastjórnar hafi mætt jafn harðri gagnrýni og fangabúðirnar sem komið var upp í Guantanamo fyrir þremur árum virðist sem þær standi til frambúðar. Uppi eru áform um að byggja þar fangelsi fyrir andvirði 1.600 milljóna króna og geðdeild fyrir rúmar hundrað milljónir króna. Fangabúðirnar voru opnaðar 11. janúar 2002 og var yfirlýst markmið með þeim að þar yrðu geymdir hættulegustu hryðjuverkamennirnir sem fangaðir voru í Afganistan og þeir sem talið var að byggju yfir upplýsingum um hryðjuverkastarfsemi. Þeir sem þangað voru fluttir voru vistaðir án undangengins dóms eða ákæru og neitað um þjónustu lögmanns. Þetta hefur sætt gagnrýni frá mannréttindasamtökum og öðrum sem láta sig málið varða. "Þetta minnir á lélegan vestra. Föngum er haldið í fangelsi þar til dómarinn kemur og á meðan smíða menn gálgana," sagði Charlie Swift, flotaforingi og verjandi eins þeirra sem haldið er í Guantanamo, Salim Ahmed Hamdan. Í dag eru 550 manns frá 42 ríkjum haldið í Guantanamo. Fæstir þeirra eru taldir búa yfir gagnlegum upplýsingum en dvelja þó væntanlega lengi enn í Guantanamo, sumir vegna þess að málsmeðferð þeirra hefur tafist, aðrir vegna þess að þeir eru taldir hættulegir Bandaríkjunum eða bandamönnum þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×