Innlent

Húsnæðisverð mun hækka meira

Sérfræðingar Íslandsbanka spá því að að húsnæðisverð hækki jafnvel enn meira í ár en í fyrra en þá hækkaði íbúðaverð í sérbýli um 25 prósent og um 17 prósent í fjölbýli. Þessa spá byggir bankinn á greiðari aðgangi að lánsfjármagni með tilkomu húsnæðislána bankanna, rýmri lánaheimildum Íbúðalánasjóðs, lækkandi raunvöxtum og auknum kaupmætti. Við þetta má svo bæta að frá félagsmálaráðuneytinu er að vænta nýrrar reglugerðar sem heimilar að bæta lóðarmati við íbúðarmatið til að hækka brunabótamatið en það eykur lánamöguleika. Rúmlega 6% íbúða á höfuðborgarsvæðinu skiptu um eigendur þá fjóra mánuði í fyrra eftir að bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn og hátt í 5% íbúða á Akureyri skiptu um eigendur á sama tímabili. Svona í framhjáhlaupi hefur þetta verið mikil gósentíð hjá sendibílstjórum og iðnaðarmönnum því margir breyta eða endurbæta íbúðir áður en þeir flytja inn í þær. Ef spáin gengur eftir kostar tuttugu milljón króna íbúð núna a.m.k. 25 milljónir eftir ár. Í spánni segir að á einhverjum tímapunkti muni markaðurinn mettast og veltan minnka á ný en að mati greiningardeildar bankans sé ekki komið að þeim vatnaskilum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×