Erlent

Kosningar gætu valdið klofningi

Vonir standa til þess að kosningarnar í Írak verði skref í átt að tilurð frjáls lýðræðisríkis á svæðinu en svo virðist sem þær gætu valdið klofningi frekar en öðru. Árásir á stjórnmálaflokka valda ótta og ringulreið. Sjítar og súnnítar virðast með öllu klofnir í afstöðu sinni. Sjítar, sem eru um sextíu prósent þjóðarinnar, fagna kosningunum, en súnnítar vilja að þeim verði frestað. Stjórnmálaleiðtogar úr röðum þeirra hyggjast margir sniðganga kosningarnar og á svæðum súnníta, þar sem árásir og hryðjuverk eru tíð, þora margir ekki á kjörstað. Landamærum Íraks verður lokað fyrir þingkosningarnar og að auki verður umferð við kosningamiðstöðvar bönnuð til að draga úr líkum á árásum. Í morgun var gerð sjálfsmorðssprengjuárás á kosningamiðstöð stjórnmálaflokks sjíta. Þar fórst einn og sjö særðust. Einn af þeim sem bjóða sig fram til forsætisráðherra í kosningunum var í morgun ráðinn af dögum skammt frá borginni Basra. Nafn mannsins hefur ekki verið gefið upp. Uppreisnarmenn í Írak rændu í gærkvöldi erkibiskupi sýrlenska hluta kaþólsku kirkjunnar þar sem hann var á gangi utan við kirkju sína í borginni Mósúl. Honum var sleppt á ný í morgun og fullyrða talsmenn kirkjunnar að ekki hafi verið greitt lausnargjald. Ekki er ljóst hvers vegna biskupnum var rænt en kristnir menn hafa áður orðið fyrir barðinu á uppreisnarmönnum. Í ágúst síðastliðnum voru gerðar sprengjuárásir á fjórar kirkjur í borginni Mósúl. Fimmtíu og tvö prósent Bandaríkjamanna telja innrásina í Írak mistök samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups, sjónvarpsstöðvarinnar CNN og dagblaðsins USA Today. Fjöldi þeirra sem andsnúnir eru innrásinni eykst, því að sambærileg könnun í nóvember leiddi í ljós að fjörutíu og sjö prósent Bandaríkjamanna töldu innrásina mistök, eða fimm prósentum færri en nú. Í lok marsmánaðar árið 2003, fáeinum dögum eftir að ráðist var inn í Írak, sögðust þrír af hverjum fjórum Bandaríkjamönnum styðja hernaðaraðgerðirnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×