Sport

FH-ingar ósigrandi

FH-ingar eru á toppi Landsbankadeildarinnar ásamt Valsmönnum með fullt hús eftir fyrstu fjórar umferðirnar. Deildin hefst að nýju í dag eftir 11 daga landsleikjahlé. Valsmenn fara til Keflavíkur á sunnudaginn en FH-ingar hefja leik í dag þegar þeir taka á móti Þrótturum í Kaplakrika. Í hinum leik dagsins taka Framarar á móti Skagamönnum en bæði liðin töpuðu illa í síðasta leik.  Báðir leikirnir hefjast klukkan 14.00.Það hefur verið ótrúleg sigurganga hjá FH-liðinu sem hefur nú unnið sjö deildarleiki í röð og enn fremur leikið 20 leiki í röð án þess að tapa leik. FH tapaði síðast stigum í 15.umferð í fyrra þegar Skagamenn náðu 2-2 jafntefli í Krikanum. Hafnarfjarðarliðið hefur hins vegar ekki tapað leik síðan gegn Fylki í Árbænum 22. maí í fyrra. FH-liðið er enn nokkuð frá metum Valsmanna sem unnu 16 leiki í röð 1978 og léku 36 leiki án taps frá 1977-1979. FH-liðið getur hins vegar eins og Valsmenn orðið eitt af aðeins fjórum liðum í sögu tíu liða efstu deildar sem nær að vinna fimm fyrstu leiki sína. Valsmenn unnu 16 fyrstu leiki sína 1978, Skagamenn voru með fullt hús eftir 12 fyrstu leiki sína 1995 og tveimur árum síðar unnu Keflvíkingar sex fyrstu leiki sína. Þróttarar náði sínu fyrsta stigi í síðasta leik í 2-2 jafntefli við Keflavík en liðið tapaði fyrstu þremur leikjum tímabilsins. Þróttur náði líka aðeins einu stigi út úr fjórum síðustu leikjum sínum þegar þeir voru síðast í úrvalsdeildinni 2003 og hafa því leikið 8 leiki í röð án sigurs. Þegar Þróttarar heimsóttu FH-inga það sumar var þó allt annar gangur á liðinu en eftir 1-4 sigur Þróttara í Kaplakrika 5. júlí 2003 var liðið í 2. sæti deildarinnar. En Þróttur vann aðeins einn af síðustu níu leikjum sínum og hefur nú aðeins fengið 5 stig út úr síðustu 13 leikjum sínum í Landsbankadeildinni. FH-ingnum Tryggva Guðmundssyni mistókst að skora í leiknum á KR-velli og um leið var ljóst að met Arnars Gunnlaugssonar frá 1992-95 stendur áfram en Arnar skoraði þá í 11 deildarleikjum í röð. Tryggvi hafði skorað í sex síðustu leikjum sínum með ÍBV 1997 og þeim þremur fyrstu með FH-liðinu í sumar. Tryggvi getur samt enn bætt við sitt eigið met en hann hefur nú skorað í 14 heimaleikjum í röð með liðum sínum í efstu deild á Íslandi. Tryggvi skoraði í öllum heimaleikjum sínum með ÍBV 1997 auk þeirra fjögurra síðustu árið á undan. Þá skoraði Tryggvi í fyrsta heimaleik sínum með FH einmitt gegn ÍBV. Framarar hafa spilað sem tvö lið í sumar, annars vegar liðið sem spilar á heimavelli og hefur unnið báða leiki sína með markatölunni 6-0 og hins vegar liðið sem hefur farið stigalaust og með markatöluna 0-4 út úr tveimur leikjum sínum utan Laugardalsins. Framarar töpuðu síðasta leik 0-3 líkt og Skagamenn sem mæta í Dalinn í dag. Skagamenn töpuðu fyrir Val, 0-2, í eina útileik sumarsins til þessa en unnu 2 af 3 heimaleikjum sínum. Tapið gegn Fylki í síðustu umferð hefur örugglega hrist upp í herbúðum liðsins og það má búast við róttækrum breytingum hjá Ólafi Þórðarsyni fyrir leikinn í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×