Erlent

Lykketoft hættur sem formaður

Mogens Lykketoft felldi tár og sendi samflokksfólki sínu fingurkoss þegar hann hætti formlega sem formaður danskra jafnaðarmanna við athöfn í gær. Þessa hafði verið beðið síðan Lykketoft lýsti því yfir opinberlega eftir slæman ósigur jafnaðarmanna í dönsku þingkosningunum að hann myndi stíga niður úr formannsstólnum og jafnvel hætta í stjórnmálum. Þeir tæplega fimm hundruð stuðningsmenn flokksins sem samankomnir voru við athöfnina fengu ekki skýr skilaboð frá Lykketoft hvern hann teldi vænlegastan eftirmann sinn til forystu. Það eru þau Frank Jensen og Helle Thorning-Schmidt sem bítast um sæti hans en skiptar skoðanir eru um þau bæði innan flokksins. Lykketoft lét hafa eftir sér að þau væru bæði hæfileikarík og gætu leitt flokkinn til framtíðar en lét að öðru leyti þar við sitja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×