Sport

KR-ingar að fá alla úr meiðslum

Garðar Jóhannsson skoraði þrennu fyrir U23 ára lið KR sem lagði U23 ára lið Vals í gærkvöldi mánudagskvöld, 3-1 á KR-velli. Fimm meistaraflokksleikmenn KR léku með U23 liðinu gegn Val en þeir eru að koma sér í form eftir meiðsli sem hafa hrjáð meistaraflokk í upphafi Íslandsmótsins. Að auki lék Einar Þór Daníelsson allan leikinn með U23 KR-liðinu en ekki er enn víst hvort hann leiki með KR-ingum í sumar. Hann gekk á ný í raðir sinna gömlu félaga í Vesturbænum í vetur eftir að hafa leikið eitt tímabil með ÍBV. Bjarki Gunnlaugsson, Gunnar Einarsson, Jökull Elísabetarson, Helmis Matute og Garðar léku með U23 liðinu á mánudagskvöld en þeir hafa allir átt við meiðsli að stríða og hafa ekki getað leikið nema hluta leikja liðsins í Landsbankadeildinni í sumar. T.a.m. hefur Bjarki ekki enn verið í leikmannahópi liðsins í sumar. Garðar sagði í viðtali í þættinum "Fótboltavikan" á Talstöðinni FM90.9 í dag að hann reiknaði með að þeir fimmmenningar yrðu í leikmannahópi KR sem heimsækir ÍBV í 5. umferð deildarinnar á sunnudag. Að sögn Garðars þótti Einar Þór hafa staðið sig vel í leiknum með U23 liðinu og lék allan leikinn. Fjórar umferðir eru að baki og hefur KR átt í basli. Liðið hefur unnið tvo leiki og tapað tveimur og situr í 6. sæti deildarinnar, 6 stigum á eftir toppliðum FH og Vals.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×