Erlent

1500 líkum safnað daglega

Tala látinna í hamförunum við Indlandshaf heldur áfram að hækka. Nú er talið að um 280 þúsund manns hafi farist. Um 1500 líkum er safnað saman á hverjum degi í Aceh-héraði. Í dag er liðinn mánuður frá því flóðbylgjan skall á löndunum umhverfis Indlandshaf og enn er verið að finna lík í Aceh-héraði í Indónesíu. Flokkar líksafnara fara um svæðin sem urðu verst úti en yfirvöld telja að það taki hið minnsta mánuð til viðbótar að safna líkunum saman og þó er ljóst að mörg munu aldrei finnast. Það er orðið mikið vandaverk að bera kennsl á lík þeirra sem fórust í þessum hamförum. Hópur sérfræðinga frá þrjátíu og einu landi, þar á meðal þrír Íslendingar, tveir tannlæknar og einn rannsóknarlögreglumaður, vinna nú hörðum höndum við það að bera kennsl á lík erlendra ferðamanna í Taílandi. Þetta er erfitt verkefni en vandinn er ekki síst sá að rotnunin er svo hröð að nú þegar er erfitt að sjá af hvaða kynstofni líkin eru, hvað þá meira, og mörg eru aðeins beinin ein.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×