Viðskipti innlent

Somerfield mælir með tilboði Apax

Stjórn verslunarkeðjunnar Somerfield tilkynnti í dag að hún myndi mæla með yfirtökutilboði fjárfestahóps leiddum af Apax fjárfestingarsjóðnum. Tilboðið frá hópnum hljóðar upp á 1,08 milljarða punda, eða um 80 milljarða íslenskra króna, en það samsvarar 197 pensum á hlut. Þetta kemur fram í hálffimm fréttum KB banka.  Hópurinn sem um ræðir er sá sem Baugur átti upphaflega aðild að en dró sig svo út úr þegar ákærur í Baugsmálinu voru birtar. Að sögn KB banka má því segja að þessari sögu sé nú lokið en hún hófst 9. febrúar síðastliðinn með tilboði Baugs upp á 190 pens á hlut. Þó að því tilboði hefði verið hafnað vakti það áhuga fjárfesta á Somerfield og voru á tímabili að minnsta kosti fjórir hópar sem bitust um félagið. Þó hafði þeim sem sýndu áhuga fækkað jafnt og þétt eftir því sem á leið áreiðanleikakönnunina og var Apax hópurinn einn eftir undir lokin. Hafði Somerfield gefið Apax hópnum frest til dagsins í dag til að skila inn tilboði í félagið. Tilboðið er þó nokkru lægra en sérfræðingar í Bretlandi höfðu búist við en væntingar voru um allt að 220 pens á hlut. Verð á hlutabréfum Somerfield hækkaði nokkuð í kjölfar tilkynningarinnar í dag, úr 189 pensum á hlut í 193 pens, eða um 3,21%.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×