Sport

Figo til Liverpool

Portúgalski landsliðsfyrirliðinn Luis Figo, er nú sagður á leiðinni til Liverpool frá spænska stórliðinu Real Madrid. Figo missti sæti sitt í byrjunarliði Real Madrid í fyrra og hefur verið óánægður hjá félaginu síðan. Mörg ensk félög hafa reynt að fá Figo til sín og má þar helst nefna Newcastle og West Ham. Umboðsmaður Figo, Luis Douens, sagði Real Madrid þó enn eiga eftir að samþykkja félagskiptin. "Við höfum náð samkomulagi við Liverpool, en Real Madrid á enn þá eftir að samþykkja skiptin. Ef forráðamenn Real vilja fá pening fyrir Figo þá er ekki víst að þetta verði samþykkt." Figo hafði fengið samþykki hjá stjórn félagsins fyrir því að fá að fara frá Real Madrid án greiðslu, og því kemur nokkuð á óvart ef farið verður fram á að Liverpool borgi fyrir leikmanninn. Arrigo Sacchi, yfirmaður knattspyrnumála hjá Real Madríd, fríaði sig ábyrgð. "Florentino Perez á lokaorðið um það hvort félagið fer fram á greiðslu og þess vegna ætla ég ekki að skipta mér af þessu." Figo, sem var kjörinn besti leikmaður heims árið 2001, var keyptur til Real Madríd frá erkifjendunum í Barcelona fyrir metupphæð árið 2000, og hefur síðan leikið stórt hlutverk í sókndjörfu liði Real Madríd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×