Erlent

Tugþúsundir barna í reiðileysi

Hjálparstofnanir og yfirvöld í viðkomandi löndum hafa miklar áhyggjur af tugþúsundum barna sem misstu foreldra sína í flóðbylgjunni í Asíu. Enginn veit með vissu hversu mörg börn eru munaðarlaus eftir flóðbylgjuna á annan í jólum. En miðað við að yfir 160 þúsund manns fórust, og fjölskyldur eru barnmargar á þessum slóðum, má búast við að þau skipti tugum þúsunda. Fátækt er einnig mikil, ekki síst í Indónesíu þar sem manntjónið var mest, þannig að framtíðin er ekki björt fyrir þessi börn. Hjálparstofnanir og ríkisstjórnir landanna hafa skiljanlega af þessu miklar áhyggjur. Mörg börn eiga ekki í nein hús að venda og það þarf því að sjá fyrir daglegum þörfum þeirra. En það er ekki eini vandinn. Þessi börn hafa orðið fyrir óskaplegu andlegu áfalli og litla hjálp að hafa á því sviði. En það voru líka foreldrar sem lifðu og misstu börn sín. Á sjúkrahúsi í Sri Lanka er t.a.m. þriggja mánaða gamall drengur sem enginn veit hver á. Hann er einfaldlega kallaður barn númer 81. Níu mæður sem sakna þriggja mánaða sonar hafa gert tilkall til hans. Þetta fólk er skiljanlega í mikilli geðshræringu og hefur bæði hótað að fremja sjálfsmorð og myrða læknana ef það fær ekki barn númer 81. Auðvitað er hægt að skera úr þessu með DNA-prófi en það kostar þúsundir dollara að senda hvert sýni til Bretlands og enginn hefur efni á því. Ofan á allt þetta bætist að, hversu ótrúlegt sem það kann að vera, þá eru komnir á flóðasvæðin barnaníðingar sem reyna að notfæra sér ástandið til þess að verða sér úti um börn sem enginn kemur til með að sakna. Þegar hafa mörg slík tilfelli komið upp og nokkrir verið handteknir. Hins vegar veit enginn hversu margir hafa sloppið með ránsfeng sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×