Innlent

Samstarf við Norðurljós skilyrði

Hallgrímur Thorsteinsson segir fimm milljóna króna lán sem Arnþrúður Karlsdóttir fékk hjá Jóhannesi Jónssyni hafa verið bundið skilyrðum um að Útvarp Saga færi í samstarf við Norðurljós. Arnþrúður segir lánið hins vegar engum skilyrðum hafa verið bundið.  Fyrrum samstarfsfélagarnir af Útvarpi Sögu mættu í Ísland í dag í gærkvöldi. Þar sagði Hallgrímur að Arnþrúði hefði verið það fullljóst að fimm milljóna króna láni sem hún fékk hafi fylgt skilyrði um samstarf við Norðurljós. Hallgrímur sagðist vita að Jóhannes í Bónus hafi veitt Arnþúði lánið með fyrrnefndum skilyrðum. Eins og lengi hefur verið standa orð gegn orði í málefnum Útvarps Sögu og segir Arnþrúður enga skilmála um samstarf hafa fylgt láninu. Hún segist hafa átt örstuttan fund með Gunnari Smára Egilssyni og Skarphéðni Berg Steinarssyni, stjórnarmönnum Norðurljósa, þar sem Hallgrímur og Sigurður G. Tómasson, annar fyrrverandi samstarfsmaður Arnþrúðar hjá Útvarpi Sögu, hafi einnig verið viðstaddir. Að sögn Arnþrúðar fóru aðeins fram þreifingar um hugsanlegt samstarf en engar kröfur verið gerðar af hálfu Gunnars og Skarphéðins. „Hins vegar kom það fram á þeim fundi að þetta gæti verið möguleiki; ... þá biðja þeir báðir um það, Hallgrímur og Sigurður, að ég myndi taka hærra lán til þess að þeir gætu fengið hvor sína milljónina vegna þess að þeir vildu líka peninga,“ sagði Arnþrúður í Íslandi í dag í gærkvöldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×