Viðskipti innlent

Verðmiðinn 400 pens á easyJet

Nýtt verðmatsgengi hljóðar upp á 400 pens á hlut en markaðs­virði er í 350 pensum. Baugur og KB banki hafa bæst í hóp FL Group sem hluthafar.
Nýtt verðmatsgengi hljóðar upp á 400 pens á hlut en markaðs­virði er í 350 pensum. Baugur og KB banki hafa bæst í hóp FL Group sem hluthafar.

Citigroup hefur hækkað verðmat sitt á easyJet úr 280 pensum á hlut í 400 pens og mælir með kaupum í breska lággjaldaflugfélaginu. Gengi easyJet stóð í 350 pensum á markaði í gær sem er 12,5 prósentum undir verðmatsgenginu.

Bankinn tekur það sérstaklega fram að mikil áhætta fylgi því að eiga bréf í easyJet. Í greiningunni kemur fram að meðal nýrra hluthafa í easyJet eru Baugur Group, sem átti um 2,2 prósent þann 1. nóvember, og KB banki sem fór með um hálft prósent. Báðir aðilar eru jafnframt meðal stærsta eiganda í FL Group.

Að viðbættum hlut FL Group nálgast eignarhlutur þessara íslensku fjárfesta um nítján prósent af hlutafé easyJet. Höfundar verðmatsins telja að með innkomu Andrews Harrison í stól forstjóra easyJet sé félagið tilbúið til að taka næstu skref. Bankinn býst við að félagið muni á næstu árum auka hagnað sinn en ekki einungis veltu sem einkennt hefur reksturinn undanfarin misseri.

Kaup FL Group á bréfum í easyJet auki vitund stjórnenda félagsins um að hámarka arðsemi félagsins, enda minnki það líkur á yfirtöku af hálfu Íslendinganna ef verðmæti félagsins aukast. Hækkun verðmatsins byggist meðal annars á því að afkoma easyJet á síðasta rekstrarári var umfram væntingar. Citigroup hækkar spár sínar um hagnað easyJet á árunum 2006-"07. Á næsta ári er búist við að hagnaður félagsins hækki um 10,7 prósent á hlut frá fyrri spá en aukist svo um 32 prósent árið 2007 og um 38,5 prósent ári síðar. Citigroup reiknar það út að meðalkaupgengi FL Group á 16,2 prósenta hlut í flugfélaginu hafi verið um 192 pens á hlut. Hefur því virði hlutanna hækkað yfir 80 prósent ef ekki er tekið tillit til styrkingar krónunnar gagnvart pundi. Í greiningunni er gert ráð fyrir að FL Group auki hlut sinn enn frekar þar sem nýlegt hlutafjárútboð gaf félaginu um 65 milljarða til frekari verkefna. Það er þó óljóst hvert endanlegt markmið FL Group sé en Citigroup reiknar með því að FL Group fari fram á sæti í stjórn easyJet.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×