Viðskipti innlent

Ósammála um hvernig verðbólgan muni þróast

Góðærið á hafnarbakkanum.  Öllum er ljóst að þensla er í hagkerfinu. Óvissa um gengi gerir að verkum að erfitt er að spá um verðbólgu á næstu misserum.
Góðærið á hafnarbakkanum. Öllum er ljóst að þensla er í hagkerfinu. Óvissa um gengi gerir að verkum að erfitt er að spá um verðbólgu á næstu misserum.

Óvissa um gengisþróun krónunnar gerir Íslandsbanka og KB banka erfitt fyrir að spá um verðbólgu næstu tvö árin. Greiningardeild KB banka telur að verðbólgan muni skjótast hratt upp, líkt og gerðist árið 2001, ef gengi krónunnar veikist. Þar sem áhrifa gengisveikingarinnar muni ekki gæta fyrr en undir lok næsta árs muni verðbólgan ekki hækka að marki á næsta ári. Hún muni hins vegar verða hærri árið 2007.

Samkvæmt verðbólguspá sem greiningardeild Íslandsbanka gaf út í síðustu viku er reiknað með að verðbólgan verði 6,4 prósent yfir næsta ár og 8,2 prósent yfir árið 2007. Ræður spá um veikingu krónunnar á þessu tímabili miklu um þessa niðurstöðu.

Greiningardeild KB banka spáir því hins vegar að verðbólgan verði mun lægri á næsta ári, eða 3,5 prósent, og miðar þá við að gengi krónunnar lækki um þrjátíu prósent. Miðað við það verði verðbólgan 5,7 prósent yfir allt árið 2007. Hæst muni verðbólgan fara í sjö prósent um mitt það ár.

Samkvæmt spá KB banka má gengisvísitalan ekki hækka mikið umfram 126 stig á árinu 2007 svo verðbólgan haldist innan efri marka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, sem er fjögur prósent. Nú er gengisvísitalan um 104 stig og hækkar þegar krónan veikist. Sjálft verðbólgumarkmiðið, sem Seðlabankinn á að stefna að, er 2,5 prósent verðbólga á ári. Segir greiningardeildin að krónan þyrfti að styrkjast um fimm til sex prósent svo það náist.

Samkvæmt útreikningum KB banka hefur gengishækkun krónunnar síðastliðna tólf mánuði ekki skilað sér að fullu í lægra verði innfluttra vara. Munar þar um þremur prósentum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×