Erlent

Slitu viðræðum við Írana

Þrjár valdamestu þjóðirnar innan Evrópusambandsins slitu í dag viðræðum við Írana, en þeim tókst ekki að fá þá til að hverfa frá kjarnorkuáætlun sinni. Bretland, Þýskaland og Frakkland hafa frá því í desember rætt það við Írana að þeir hættti algjörlega við að auðga úran til framleiðslu kjarnorkueldsneytis gegn efnahagsaðstoð, en óttast er að þeir hyggist koma sér upp kjarnorkuvopnum. Íranar neita því staðfastlega að þeir vilji smíða kjarnavopn og segja aðeins ætla að nýta sér kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Sirus Naseri, aðalsamningamaður Írana í viðræðunum við Evrópusambandslöndin, sagði við fréttamenn í dag Íranar myndu ekki hætta að auðga úran en yfirvöld í Teheran hafa í staðinn boðið kjarnorkueftirlitsmönnum á vegum Sameinuðu þjóðanna að skoða reglulega staði þar sem framleiðsla kjarnorkueldsneytis fer fram og að draga úr auðguninni þannig að ekki verði hægt að nota úranið í kjarnorkuvopn. Þessu hafa Evrópuríkin hafnað. Naseri sagði hins vegar að ríkin myndu ræðast við aftur á næstu vikum en gaf ekki upp nákvæmar dagsetningar þar að lútandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×