Erlent

Líklega kosið 5. maí í Bretlandi

Öruggt er talið að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, blási til kosninga þar í landi 5. maí næstkomandi og að hann tilkynni þetta eftir helgi. Tæknilega hefur Blair fram til júní 2006 til að boða til kosninga en undanfarin ár hafa ríkisstjórnir að jafnaði ekki setið lengur en fjögur ár. BBC hefur heimildir fyrir því að Blair muni eftir helgi boða kosningar þann 5. maí næstkomandi og fara þess á leit við drottninguna að hún leysi upp þingið frá og með lokum fyrstu vikunnar í apríl. Blair getur gengið til kosninga öruggur miðað við niðurstöður skoðanakönnunar sem birt var í gær. Verkamannaflokkurinn er nú kominn með átta prósentustiga forskot á Íhaldsflokkinn og er það forskot einkum rakið til skattaívilnana sem kynntar voru í síðustu viku. Þær gagnast einkum efnalitlum, eldra fólki, ungum fjölskyldum og þeim sem standa í húsnæðiskaupum. Fram að könnuninni í gær bentu kannanir til þess að íhaldsmenn væru að saxa á forskot Verkamannaflokksins. Stjórnmálaskýrendur segja þetta afleit tíðindi fyrir íhaldsmenn því að ættu þeir að eiga von til að bola Blair og félögum úr embættum í kosningum í vor þyrftu þeir að vera með um tíu prósentustiga forskot á þessu stigi kosningabaráttunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×