Innlent

85% landsmanna í þjóðkirkjunni

Um 85 prósent landsmanna eru skráð í þjóðkirkjuna, en það eru 6 prósentum færri en fyrir áratug. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem standa utan trúfélaga nánast tvöfaldast. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands um mannfjölda eftir trúfélögum og sóknum í desember á síðasta ári. Þá voru 85,5 prósent landsmanna skráð í þjóðkirkjuna en fyrir áratug var hlutfallið 91,8 prósent. Á sama tíma fjölgaði meðlimum í fríkirkjusöfnuðunum þremur,  Fríkirkjuni í Reykjavík, Óháða söfnuðinum og Fríkirkjunni í Hafnarfirði, úr 3,2 prósentum í 4,5. Skráðum trúfélögum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum. Þau eru nú 21 en voru ellefu fyrir áratug. Þessum trúfélögum tilheyra 4,5 prósent íbúa samanborið við tæp þrjú prósent árið 1994. Kaþólska krikjan er þeirra fjölmennust en þar hefur meðlimum fjölgað um meira en helming á tímabilinu. Félagar eru nú tæp 6000. Hvítasunnusöfnuðurinn er svo næststærstur, en þar eru meðlimir 1800. Utan trúfélaga standa 2,4 prósent þjóðarinnar. Sú tala var 1,4 prósent árið 1994.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×