Erlent

Frekari landnemabyggðir boðaðar

Stjórnvöld í Jerúsalem tilkynntu í gær að á næstunni yrðu 3.500 hús reist fyrir landnema á Vesturbakkanum. Allar líkur eru á að ákvörðunin spilli fyrir friðarumleitunum á svæðinu. Byggingarnar munu tengja Jerúsalem og fjölmenna landnemabyggð á Vesturbakkanum. Palestínumenn eru æfir yfir ákvörðuninni enda brýtur hún í bága við svonefndan Vegvísi til friðar sem kveður á um að Ísraelsmenn hætti húsbyggingum sínum á svæðum Palestínumanna. Qureia forsætisráðherra sagði ákvörðun ísraelskra stjórnvalda vera tilræði við friðarferlið. Í samræmi við sínar skuldbindingar hófu palestínsk stjórnvöld í gær formlega afvopnun uppreisnarmanna með því að gefa út tilskipun um að vopnaburður á almannafæri væri stranglega bannaður. Ekki varð af valdaskiptum í borginni Tulkarem í gær eins og ráð var fyrir gert. Ísraelskir embættismenn sögðu að nægilegar öryggisráðstafanir hefðu ekki verið gerðar en þeir bjuggust þó við að Palestínumenn gætu tekið við stjórn borgarinnar í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×