Viðskipti innlent

Gengi krónunnar gæti hríðfallið

Útgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum heldur áfram og er þegar farin að valda vaxtalækkunum á vissum sviðum, sem stríða gegn verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Skuldabréfin nema nú á níunda tug milljarða, en ekki eru nema nokkrar vikur síðan að útgáfan hófst og með öllu er óljóst í hvaða upphæð kann að stefna. Þetta þýðir að erlendur gjaldeyrir flæðir inn í landið en krónur út, en sú þróun gengur þvert á verðbólgumarkmið Seðlabankans. Eins og við greindum frá í siðustu viku skapast líka sá fræðilegi möguleiki að útlengingarnir selji megnið af bréfunum á tiltölulega skömmu tímabili, en þá kynni krónan að hríðfalla. Eftir því sem Fréttastofan kemst næst, eru þetta þó dreifðir kaupendur sem yfirleitt eru að kaupa í eignasöfn, fremur en beinir spákaupmenn, og dregur það nokkuð úr hættunni á því. Þá segja sérfræðingar að að spákaupmenn sýni þessum bréfum væntanlega minni áhuga en ella eftir að Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið í stað gengismarkmiðs, sem gilti um aldamótin þegar Seðlabankinn varð að ganga verulega á gjaldeyrisforða sinn til að verja stöðu krónunnar. Undir þetta tekur Eiríkur Guðnason Seðlabankastjóri, sem segir að þessi skuldabréfaviðskipti séu visst áhyggjuefni, en að íslenska hagkerfið sé þó betur statt gagnvart þeim með verðbólguviðmiðið, í stað gamla gengismarkmiðsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×