Viðskipti innlent

Milljarðalán til sparisjóðanna

Íbúðalánasjóður hefur lánað bönkum og sparisjóðum allt að áttatíu milljarða króna. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur stærsti hluti lánanna farið til sparisjóðanna til að fjármagna íbúðalán þeirra til viðskiptavina. Íbúðalánasjóður fær svo veð í íbúðalánunum en sparisjóðirnir, og í einhverjum tilvikum viðskiptabankarnir, sjá um innheimtu lánanna og þjónustu. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir að þessir lánasamningar hefðu ekki verið neitt leyndarmál og kæmu fram í ársreikningi 2004. Það hafi þurft að bregðast við miklum uppgreiðslum íbúðalána með því að finna ný verkefni fyrir peningana. Þeir verði ekki geymdir undir koddanum. "Við höldum áfram að safna peningum, sem við komum ekki út í ný útlán þótt útlánin hjá okkur séu líka mjög mikil," segir Guðmundur. Aðspurður hvort Íbúðalánasjóður sé að fara út fyrir verksvið sitt með þessu segir Guðmundur svo ekki vera. "Við höldum áfram að gegna okkar hlutverki sem lánveitandi eins og lög og reglugerðir kveða á um," svarar hann. Sjóðurinn sé bundinn af hámarkslánum og öðru sem tilgreint sé í lögum. Þó sé engin óskastaða uppi í ljósi mikilla uppgreiðslna. "Við lendum í því að verja stöðu sjóðsins, eiginfjárhlutfall og passa uppá að fjárstreymi milli inn- og útlána sé í jafnvægi. Við verðum að finna því einhvern farveg. Það er hluti sem fellur undir þau lagaákvæði sjóðsins sem fjalla um fjárhag og áhættustýringu." Guðmundur segir þetta því tvö aðskilin hlutverk; annað er að vera í útlánastarfsemi og hitt er að verja stöðu sjóðsins svo ekki reyni á ríkisábyrgðina. Þeir sem Markaðurinn talaði við innan viðskiptabankanna í gær voru ekki sáttir við þessa stefnu Íbúðalánasjóðs. Í máli þeirra kom fram að sjóðurinn væri að auka hlutdeild sína í íbúðalánum á markaðnum, í gegnum sparisjóðina, í skjóli ríkisábyrgðar. Slíka ábyrgð hefðu bankarnir ekki, sem væru í samkeppni við Íbúðalánasjóð. Fannst þeim eins og sjóðurinn væri kominn út fyrir verksvið sitt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×