Erlent

Þjóðin syrgir látinn leiðtoga

Þjóðarsorg ríkir í Líbanon eftir að fyrrverandi forsætisráðherra landsins lét lífið í sprengjuárás á mánudaginn við þrettánda mann. Enn er óvíst hverjir standi að baki tilræðinu en margir hallast að því að Sýrlendingar hafi haft hönd í bagga. Óttast er að tilræðið leiði af sér ólgu í landinu. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Líbanon eftir morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Skólar, bankar og verslanir voru lokaðir og fáir voru á ferli í höfuðborginni. Auk Hariri týndu þrettán manns lífi í árásinni og rúmlega 120 særðust. Her landsins er í viðbragðsstöðu. Áður óþekkt samtökt lýstu í fyrradag morðunum á hendur sér í myndbandsupptöku sem sýnd var á Al-Jazeera sjónvarpsstöðinni en yfirlýsingunni er þó tekið með varúð. Margir álíta að sýrlensk stjórnvöld beri ábyrgð á tilræðinu, meðal annars Michel Aoun, fyrrverandi hershöfðingi sem stóð fyrir uppreisn í landinu snemma á tíunda áratugnum en hann er nú í útlegð í Frakklandi. Bashir Assad, forseti Sýrlands, hefur hins vegar fordæmt árásina, rétt eins og stjórnmálamenn víða um heim, þar á meðal Bush Bandaríkjaforseti. Hariri var sextíu ára að aldri og stórefnaður. Hann var forsætisráðherra Líbanon í alls tíu ár eftir að borgarastyrjöldinni þar lauk fyrir fimmtán árum. Hariri sagði hins vegar af sér embætti í fyrrahaust eftir deilur um afskipti Sýrlendinga af stjórn landsins. Spenna hefur farið vaxandi í Líbanon undanfarna mánuði eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun þar sem skorað var á sýrlensk stjórnvöld að hætta afskiptum af líbönskum innanríkismálum. Sýrlendingar halda úti 15.000 manna herliði er í landinu og hafa mikil ítök í stjórnmálalífinu. Einhverjir stjórnmálaskýrendur telja að tilræðismennirnir vilji spilla friðnum fyrir botni Miðjarðarhafs eftir að Ísraelar og Palestínumenn sömdu um vopnahlé en sýrlensk stjórnvöld og ýmis samtök sem starfa í skjóli þeirra, til dæmis Hizbollah, eru sögð lítt hrifin af þróun mála þar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×