Erlent

Kosningarnar hafa gengið vel

Forsetakosningarnar í Palestínu voru framlengdar um tvær klukkustundir nú síðdegis, meðal annars vegna þess að kosningaþátttaka er meiri en búist var við. Þrátt fyrir ýmis konar vandkvæði virðast flestir á þeirri skoðun að kosningarnar hafi gengið vel fyrir sig. Alls eru átta hundruð erlendir kosningaeftirlitsmenn í Palestínu til að tryggja að forsetakosningarnar, þær fyrstu síðan 1996, gangi snurðulaust fyrir sig. Fyrr í dag bárust fregnir af því að ísraelskir hermenn hefðu vísað mörg hundruð Palestínumönnum frá kjörstöðum á herteknu svæðunum. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna og formaður BSRB, sem staddur er í Austur-Jerúsalem í boði palestínskra verkalýðshreyfinga, segir að meðal annars vegna þessa hafi verið ákveðið að hafa kjörstaði opna lengur eða allt til klukkan sjö að íslenskum tíma. Ögmundur segist hafa orðið var við að fólki hafi verið vísað á milli kjörstaða, sérstaklega í Austur-Jerúsalem, en samkvæmt þeim fréttum sem hann hafi haft hafi kosningarnar gengið vel fyrir sig. Þó ekki betur en svo að ástæða hafi verið til að framlengja kjörfund um tvær klukkustundir. Kosningaþátttaka virðist ætla að verða góð þrátt fyrir að ýmsar herskáar hreyfingar Palestínumanna eins og Hamas-samtökin hafi hvatt fólk til að hunsa kosningarnar. Ögmundur segir þó yfirgnæfandi meirihluta fólks líklegan til að taka þátt í kosningunum. Um miðjan dag hafi þegar 60% kosningabærra manna nýtt sér atkvæðisrétt sinn. Úrslitin virðast hins vegar ráðin. Mahmoud Abbas, sem er frambjóðandi Fatah-hreyfingar Jassers Arafats, nýtur stuðnings yfirgnæfandi meirihluta Palestínumanna. Þó er athyglisvert að andstæðingur hans, Mustafa Barghouti, virðist ætla að fá 20-30% fylgi en það yrði þá í fyrsta sinn sem Palestínumenn greinast í tvær andstæðar lýðræðislegar fylkingar. Talið er að úrslit kosninganna muni styrkja stjórn Palestínumanna á herteknu svæðunum og veita henni lýðræðislegt aðhald.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×